145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:52]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er vissulega ekki traustvekjandi að eftir að 2. umr. er hafin hafi ekki verið gert ráð fyrir launahækkunum til framhaldsskólakennara. Maður fagnar því auðvitað að þeir fái hækkanir sínar þó að það sé mjög bagalegt að það hafi ekki komið fram fyrr og það misfarist. Það skiptir ekki öllu máli hvar mistökin áttu sér stað, hvort það var í ráðuneytinu eða að fjárlaganefnd hafi ekki verið nógu glögg og séð þetta fyrir, nógu er það samt slæmt. Þetta kemur núna á daginn og það þarf auðvitað að skoða það betur í fjárlaganefnd og líka fara yfir hvort einhverjir aðrir liðir eru ekki að fullu fjármagnaðir. Það er ekki mjög traustvekjandi að þetta skuli koma fram núna. Það held ég að allir verði að viðurkenna, líka í stjórnarmeirihlutanum.