145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:56]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég mótmæli því að það sé á ábyrgð stjórnarandstöðunnar hvað talað er lengi. Hér voru greidd atkvæði um kvöldfund fyrr í dag og það voru ekki þingmenn stjórnarandstöðunnar sem greiddu atkvæði með því að fundað yrði fram á nótt. Svo vil ég reyndar telja þingmönnum stjórnarmeirihlutans til tekna að þeir hafa að minnsta kosti tekið þátt í umræðunni núna. Miðað við mörg mál hafa margir þingmenn frá meirihlutaflokkunum á þingi tekið þátt í umræðunni, hafa tekið þátt í andsvörum. Ég hef kallað eftir því við umræðu um mörg mál í haust. Ég vísa því hins vegar algerlega á bug að það sé okkur í stjórnarandstöðunni að kenna að hér sé talað lengi. Við berum saman ábyrgð á þessu og það er svona sem á að vinna málin, með samræðu, en það á að gera það í björtu (Forseti hringir.) en ekki inn í nóttina. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)