145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:59]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Mér þykir alltaf leitt að heyra þegar þingmenn vísa ábyrgðinni af eigin mistökum eitthvað annað eins og hv. þm. Jón Gunnarsson gerði áðan með því að vísa upp í fjármálaráðuneyti, að starfsfólk fjármálaráðuneytisins hafi gleymt eða því láðst eða það ekki áttað sig á tillögum sem meiri hlutinn á Alþingi á að flytja. Þetta finnst mér ekki vel mælt og ekki góð orð í garð starfsfólks og embættismanna í fjármálaráðuneyti frekar en í öðrum ráðuneytum sem eru að vinna ágætisverk. Menn eiga að hafa pínu kjark sjálfir til að axla ábyrgð á mistökum sem þarna koma, hvernig sem þau eru til komin. Það getur vel verið að þetta sé bara, eins og gengur og gerist, eitthvað sem rennur fram hjá mönnum. Í guðanna bænum, axlið ykkar ábyrgð á því sjálf, ekki vísa á fólk úti í bæ, embættismenn eða starfsmenn ráðuneyta.

Ég tek undir með hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni. Hér eru ágætisumræður. Það er enn verið að halda fyrstu ræður. Það er sjálfsagt að þær verði haldnar, nema hvað, inn í nóttina (Forseti hringir.) og fram á morgundaginn mín vegna. Þetta er í fyrsta skipti sem ég veit til þess að stjórnarliðar kvarti yfir umræðu um fjárlög í 1. umr. Þvílíkt þolleysi. (JónG: Þetta er 2. umr.)