145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég lít ekki svo á að hér sé eitthvert gríðarlegt vandamál sem þurfi að leysa með einhverjum samningum um ræðutíma og ég veigra mér ekkert við að halda ræðu, enda er ég næstur á mælendaskrá, og vera eitthvað inn í nóttina. Mér finnst hins vegar alveg þess virði að halda því til haga að almennt þegar maður vinnur með mörg gögn, gögn sem oft eru flókin og umdeild og oft og tíðum skrýtin, er alveg þess virði að fá nætursvefn. Það er alveg þess virði að hafa smábil á milli vinnutarna en á Alþingi er orðið normið að svo sé ekki á köflum (Gripið fram í.) og svo stæra menn sig hérna af því að þeir ætli að vera þessar miklu hetjur og vera hérna langt inn í nóttina. Gott og vel, menn mega alveg vera hetjur ef þeir vilja en það þýðir ekki að það sé skynsamlegt. Þetta er heimilt samkvæmt þingsköpum, við vitum það. (Gripið fram í.) Það þýðir ekki að það sé skynsamlegt. Ég vil bara halda því til haga að það er ekki endilega skynsamlegt að ræða hlutina út í nóttina, jafnvel þótt það sé leiðinlegt, jafnvel þótt mönnum finnist það ægilega töff.