145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:51]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir ágæta ræðu. Mig langaði aðeins að ræða við hv. þingmann um fangelsismálin. Ég hjó eftir því að hann hafði áhyggjur af þeim þáttum og ég tek undir með honum þar. Ég er ánægður með að hann hafi veitt þessu máli athygli og sérstaklega að leggja þurfi meira í starfsemina á Litla-Hrauni, sem er undirmönnuð og illa fjármögnuð.

Ég vil vekja athygli hv. þingmanns á því að í fjárlagafrumvarpinu er lagt til að leggja 160 millj. kr. aukalega í þennan málaflokk. Einnig gerði meiri hluti fjárlaganefndar að tillögu sinni að bæta að auki 45 millj. kr. í málaflokkinn, þannig að alls verður aukningin 205 millj. kr. á milli áranna 2015–2016. Það er 14% aukning. Er hv. þingmaður ekki nokkuð ánægður með það? Telur hann hugsanlega að gera þurfi meira eða er hann með aðrar tillögur í því efni?