145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ósammála því að tillögur minni hlutans séu ekki fjármagnaðar en til þess að halda samtalinu áfram skal ég sættast á það, alla vega í þessari rökræðu, vegna þess að jafnvel þótt svo sé er eru tillögur minni hlutans það hóflegar að þar ættu að rúmast, þrátt fyrir að engar tekjur kæmu á móti. Við ættum samt sem áður að skila hallalausum fjárlögum og vera með afgang. Með hliðsjón af fréttum sem við heyrum af heilbrigðiskerfinu og frá mönnum sem vita mjög mikið um heilbrigðiskerfið og vinna mjög náið með því, þá er enn þá mjög mikill fjárskortur og það er ábyrgðarhluti okkar að koma til móts við það, jafnvel þótt við gleymum þessum tekjuöflunarleiðum frá minni hlutanum.

Hvað varðar tekjutengingarnar er það eitthvað sem getur ekki gerst á einu bretti, enda erum við að ræða kerfi sem er afskaplega flókið. Ég hlakka mjög til að heyra tillögur sem koma frá títtnefndri nefnd, sem á að veita heildarsýn á það hvernig þetta kerfi eigi að virka í framtíðinni. Það er held ég þá fyrst sem ég get svarað einhverjum nánari útfærsluatriðum um það hvernig ég sé fyrir mér að hægt væri að afnema tekjutenginguna.