145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:58]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er erfitt að ræða svona stórmál á svo ótrúlega skömmum tíma. En hins vegar er það þannig að það verða jafn miklar arðgreiðslur alveg sama hvaða tölu menn setja í það. Það er bara Bankasýslan sem kemur með þá tillögu. Menn hafa lagt áherslu á að hún eigi að vera til staðar og sinna hlutverki sínu og þetta er eitt af hlutverkum hennar. Það skiptir engu máli hvaða tala er sett í fjárlögin, það bara kemur út þannig að það er engin breyting hvað það varðar. 4.000 milljónir í skatteftirlit er náttúrlega út í bláinn. Það er alveg fullkomlega út í bláinn. Það vita allir. Þeir hefðu alveg eins getað sett 6 eða 8 eða 2 eða hvað sem er, þannig að ef menn taka saman útgjöldin sem eru komin og afganginn náum við ekki endum saman miðað við þessar forsendur.

Varðandi heilbrigðismálin almennt er ég algjörlega með í því að þetta er eitt af því sem við eigum að forgangsraða í, það er það sem við erum búin að vera að gera, en það vantar hins vegar algjörlega umræðu um það hvar á að spara. Ég sakna þess í ræðu hv. þingmanns.