145. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held ég mundi ekki hafa aðrar áherslur, ég mundi bara vilja hafa meira af þessu. Ég mundi vilja hafa meira af peningum í þessu. Þetta eru allt góðir hlutir. Ég fagna sér í lagi þeim 850 milljónum sem eru lagðar til til að vinna á biðlistum, mjög mikilvægt.

Enn og aftur. Ég fagna því að viðleitnin sem ég heyri hér sé sú að þetta kerfi sé í forgangi. Í ræðu minni áðan vakti ég máls á þessu til að benda á að þetta kerfi þurfi að vera í forgangi og það þurfi fjármagn og það gleður mig að andsvörin sem ég fæ eru ekki þessi: Nei, Helgi Hrafn Gunnarsson, hv. þingmaður, þetta á ekki að vera í forgangi. — Enginn er að segja það. Allir eru að segja að þetta eigi að vera í forgangi. Ég fagna því. Ég get þess vegna ekki mótmælt þeim hlutum sem hv. þingmaður nefndi. Ég fagna þeim öllum. En ég mundi vilja ganga lengra og legg til að við gerum það vegna þess að við getum það, við erum að skila hallalausum fjárlögum. Það er svigrúm til að gera enn betur. En í því felst engin fordæming á það sem þó er verið að gera.