145. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég treysti mér ekki til að svara spurningunni um lýðskrumið. Það er svo ægilega mikið viðhorfs- og túlkunaratriði, sjálfsagt finnst mörgum það vera lýðskrum. Ég geri ráð fyrir því að hv. þingmanni finnist þetta vera lýðskrum.

Nú er ég langt frá því að vera einhver sérfræðingur í því hvernig þetta bótakerfi allt saman virkar og hef þó reynt að skilja hluta af því, sem reyndist mjög erfiður vegna þess að þetta er mjög flókið. Ég segi stundum, sér í lagi í sambandi við skuldaleiðréttinguna svokölluðu, að enginn hópur hafi upplifað annan eins forsendubrest eftir hrun og öryrkjar og ellilífeyrisþegar. Enginn. Enginn hópur á Íslandi. Fólk með verðtryggð lán gat þó alla vega lesið samninginn og reynt að skilja hann en þegar átti að gera ráð fyrir þessu gátu þeir það ekki út af hruninu, vegna þess að lögunum var einfaldlega breytt. Þeir hafa því orðið eftir alla tíð síðan. Það er kominn tími til þess að við sýnum þá viðleitni að verða við óskum þeirra.

Það hvort þessi 3% hækkun (Forseti hringir.) sé í raun og veru staðgengill þess að það virki afturvirkt þyrfti ég að skoða betur, verð ég að viðurkenna, til að komast endanlega að niðurstöðu. Mér finnst sjálfsagt að verða við (Forseti hringir.) kröfum þessa hóps alla vega af og til.