145. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:54]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir spurningarnar og andsvarið.

Fyrst að tryggingagjaldinu, ég get alveg sagt það hér að ég hafði vonir til þess í upphafi kjörtímabils að við færum hraðar í að lækka tryggingagjald. Ég segi það bara hreint út að auðvitað er nauðsynlegt að fara í það þegar atvinnuleysi er mikið, þ.e. þá verður atvinnulífið að taka á með ríkissjóði í þeim efnum og gerði það sannarlega, en þegar atvinnuleysi minnkar þá hefði maður viljað sjá tryggingagjaldið lækka í takti við það. Ég tala nú ekki um þar sem atvinnulífið okkar byggist á minni meðalstórum fyrirtækjum og hér erum við, með því að setja auknar fjárhæðir sem svo sannarlega er verið að gera í þessum fjárlögum í nýsköpun og þróun, að reyna að efla það sem heitir þekkingarstarfsemi sem er mannaflsfrek. Ferðaþjónustan er mannaflsfrek grein og því er mikilvægt að taka á með atvinnulífinu í þeim efnum. Það er hins vegar þannig að í kjarasamningum kom hæstv. ríkisstjórn mynduglega að þeim og þar var forgangsraðað í þá veru að breyta tekjuskatti og lækka tekjuskatt fremur en tryggingagjaldið og það hefur hæstv. fjármálaráðherra farið afar vel yfir og sagt ískalt að það verði að standa. Og það sjáum við í þessum fjárlögum þar sem verið er að lækka hlutföllin og fækka þrepum.