145. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:59]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir spurningarnar. Þetta eru stórar spurningar í ljósi umræðunnar, en fyrst að heilbrigðiskerfinu. Ég þarf auðvitað að skoða þær tölur sem eru lagðar fram fyrir okkur í fjárlögum og það hefur sannarlega verið sett aukið fé í Landspítalann. Nú ætla ég ekki að halda því fram að við þurfum ekki nýtt sjúkrahús, ég ætla ekki að halda því fram að ekki þurfi milljarð eða tvo, ég treysti mér einfaldlega ekki til að leggja dóm á það. Ég fagna því viðbótarframlagi sem á að setja í þá greiningu og ég treysti mér næstum til að fullyrða að spítalinn er vel rekinn. Ég hef auðvitað ekki lagst yfir allar tölur, ég hef ekki allar tölur tiltækar, ég bara treysti því fólki sem er að vinna að þeim málum. Við eigum frábært fagfólk og rekstraraðila á þessu sviði sem hafa staðið sig frábærlega við mjög erfiðar aðstæður, en 1, 2, 3 milljarðar, ég ætlast bara til þess að við náum sátt og samkomulagi um það. En það er sannarlega, svo ég leggi áherslu að það, búið að bæta verulega í til heilbrigðismála og ég ætla ekki að þreyta hv. þingmann að lesa upp þær tölur, ég veit að henni er fyllilega kunnugt um þær.

Varðandi eldri borgara og öryrkja segi ég það sama. Við erum að ræða fjárlögin og þessar kröfur hafa legið fyrir og ég sagði það áðan í ræðu minni; ég biðla til hæstv. ríkisstjórnar að ná samkomulagi og sátt við þessa hópa og hún horfi til þeirra krafna sem lagðar eru fram. Í fyrsta lagi að hér munu laun ná lágmarkslaunum (Forseti hringir.) fram í tímann 2018–2019 og svo verður að skoða þessa kröfu um afturvirkni í ljósi laga um almannatryggingar.