145. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:31]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur ræðuna, hygg að hún hafi verið í annarri ræðu sinni, en hún var með framsögu í fyrstu ræðu væntanlega og fjallaði um nefndarálit sem hv. þingmaður stendur fyrir, þ.e. nefndarálit 2. minni hluta fjárlaganefndar.

Ég vil segja í upphafi áður en ég legg fram spurningar að ég tel það til fyrirmyndar að minni hlutinn skilar þremur nefndarálitum sem eru til þess fallin að styrkja hér vinnuna og rökræðuna í þingsal og skapa góðan umræðugrundvöll. Hv. þingmaður kom inn á margt sem er að finna í nefndarálitinu. Ég ætla að hluta til að halda mig við nefndarálitið sem er prýðilegt og byrja á því sem hv. þingmaður ræðir í nefndarálitinu, kom eilítið inn á það í ræðu sinni, sem snýr að því að hér verði með betri nýtingu auðlinda og einnig skattstefnu unnið gegn ójöfnuði á Íslandi.

Nú er það svo að í lífskjarakönnun Hagstofunnar er að finna upplýsingar um Gini-stuðul svonefndan fyrir árið 2014. Þar er hann 22,7, á bilinu 0 og upp í 100. Því lægri sem hann er því jafnari eru tekjurnar. Þær fóru hæst árið 2009 í 29,6. Hvernig útskýrir hv. þingmaður þennan mun, þessa lækkun?