145. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:40]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Það er af ýmsu að taka þegar kemur að fjárlagafrumvarpinu og þeim breytingartillögum sem lagðar hafa verið fram. Ég ætla að nota tíma minn í að fara almennt yfir þessi mál og það nefndarálit sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt fram.

Því ber að fagna að tekjur ríkisins skuli aukast og að þriðja árið í röð stefni í hallalausan ríkisrekstur. Tekjuaukning hefur þannig verið nýtt til að auka framlög til grunnþjónustu. Nokkuð hefur áunnist í þessum efnum en nokkuð er í land með að hefja raunverulega niðurgreiðslu skulda og vaxtakostnaður er áfram þriðji útgjaldasamasti málaflokkurinn, á eftir heilbrigðismálum og almannatryggingum. Vissulega hefði ég viljað sjá miklu meiri afgang á fjárlögum, sérstaklega þegar litið er til þeirrar miklu tekjuaukningar sem orðið hefur á undanförnum árum. Um tvennt var að velja, að skila afgangi sem hægt hefði verið að nota til að greiða niður gífurlegar skuldir ríkissjóðs þar sem árlegar vaxtagreiðslur hafa numið um 80 milljörðum kr., þ.e. hátt í tvöföldum framlögum til Landspítala á ári hverju, eða setja fjármuni í grunnstoðir eins og heilbrigðiskerfi landsmanna. Segja má að síðarnefnda leiðin hafi orðið ofan á og má vissulega rökræða hvor leiðin er farsælli til lengri tíma litið.

Við viljum sterka innviði þjóðfélagsins en við viljum líka gjarnan nota þær háu greiðslur sem fara í vexti í aðra hluti, til uppbyggingar betra þjóðfélags. Uppsöfnuð fjárfestingarþörf í innviðum, svo sem samgöngumannvirkjum, og breytt aldurssamsetning þjóðarinnar kallar á aukin útgjöld. Þá má líka benda á að lögð hefur verið minni áhersla hérlendis á framlög til háskóla en í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Er það miður. Þetta kallar hins vegar á forgangsröðun. Forgangsröðun á nefnilega að vera lykilatriði við fjárlagagerð. Hvernig ætlum við að skipta þeirri köku sem við höfum fyrir framan okkur? Hvað á hver málaflokkur að fá?

Hvað erum við til dæmis tilbúin að setja stóran hluta í heilbrigðismál? Þetta er lykilspurning og miðað við umræðu í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum eru skoðanir afar skiptar. Af hverju leitum við ekki eftir skoðun þjóðarinnar á því í hvað peningarnir fara? Þetta eru fjármunir skattborgara. Er ekki rétt að hlusta eftir skoðun þessa fólks og útdeila fjármunum eftir því?

Tökum heilbrigðismálin sem dæmi. Í dag fer um 161 milljarður kr. í þennan málaflokk samkvæmt fjárlögum næsta árs. Hér er ég að tala um Landspítala, önnur sjúkrahús, heilsugæslu, heilbrigðisstofnanir, öldrunarstofnanir og tryggingamál sem tengjast þessum málaflokki. Viljum við tvöfalda þessa upphæð? Ef við teljum að þörfin sé svo brýn að það kalli á stóraukið fjármagn er aðeins hægt að mæta því með tvennum hætti, að afla nýrra tekna og skera niður.

Við getum rætt endalaust um forgangsröðun. Við getum rifist endalaust um hvað eigi að gera og hversu mikið eigi að fara í hvern og einn hinna þúsunda fjárlagaliða. Slíkt rifrildi skilar ekki miklu. Nauðsynlegt er að horfa á heildarmyndina og hafa skýra stefnu til framtíðar. Því miður hefur það oft vantað við fjárlagagerð á Íslandi.

Ég minntist aðeins á heilbrigðismálin áðan en sá málaflokkur hefur verið í forgangi núverandi ríkisstjórnar. Tölurnar tala sínu máli, framlög til Landspítala voru rúmir 38 milljarðar kr. í fjárlögum 2013. Í fjárlögum 2016 er þessi tala komin upp í 50 milljarða kr., 50 þús. millj. kr. Framlög til spítalans hafa því aukist um 30% á aðeins þremur árum. Samtals hafa framlög til sjúkrahúsa aukist um tæp 35% á sama tíma.

Í fjárlögum 2013 námu framlög til heilsugæslunnar tæpum 8 milljörðum kr. Í dag er þessi upphæð komin í 10 milljarða kr. Svona getum við haldið áfram. Þannig hafa framlög til heilbrigðisstofnana aukist um 26% á síðustu þremur árum og nemur þessi upphæð nú rúmum 19 milljörðum kr.

Loks vil ég minnast á öldrunarstofnanir en framlög til þeirra hafa aukist um fjórðung á aðeins þremur árum. Ég fullyrði að það fyrirfinnst varla það byggt ból þar sem framlög til heilbrigðismála hafa aukist jafn hratt á síðustu þremur árum og hérlendis. Það þýðir ekki að íslenska heilbrigðiskerfið sé það besta í heimi. Því fer fjarri og það verður ekki heldur það besta í heimi þó að við setjum 3 eða 10 milljarða til viðbótar í það. Það væri jafnvel þörf á enn meiri pening þó að við settum 20–30 milljarða til viðbótar í heilbrigðiskerfið. Af hverju? Vegna þess að sífellt koma fram ný, betri og margfalt dýrari lyf sem og sífellt nýrri og betri tæki. Við getum einfaldlega alltaf gert betur í heilbrigðismálum.

Ég er þeirrar skoðunar að íslenska heilbrigðiskerfið þurfi meiri fjármuni. Það er óviðunandi að fólk þurfi að liggja frammi á göngum sjúkrahúsa. Það er óviðunandi að bráðnauðsynleg tæki vanti og að fjármagn skuli ekki veitt í lífshættulegar aðgerðir. Hið síðastnefnda hefur þó líka að gera með forgangsröðun innan sjúkrahúsanna.

Á umræðunni er helst að skilja að ráðamenn séu vondir menn sem vilji sjúklingum, öldruðum og öryrkjum allt hið versta. Ég þekki ekki nokkurn mann sem styður ekki þessa málaflokka, hvorki innan þings né utan. Maður gæti haldið miðað við umræðuna á samfélagsmiðlum að hér séu ekkert nema illmenni. Svo er auðvitað ekki. Heilbrigðiskerfið er eitt af hinum stóru málum okkar samtíðar. Málefni sem tengjast öldruðum og öryrkjum koma þar skammt á eftir. Þetta tengist líka mikilli fjölgun aldraðra á næstu árum og áratugum. Ljóst er að fjölga þarf hjúkrunarrýmum fyrir aldraða um allt að 1.700 á næstu 15 árum og nemur kostnaður vegna þessa um 54 milljörðum kr. Af þessum fjölda eru um 1.100 rými á höfuðborgarsvæðinu. Aldraðir eru ekki hávær þrýstihópur og því eru þeir sjaldnast ofarlega í forgangsröðinni. Miklar breytingar verða á aldurssamsetningu þjóðarinnar á næstu áratugum. Þannig er gert ráð fyrir að þeim sem eru 67 ára eða eldri fjölgi um rúmlega 26 þúsund á næstu 15 árum, þ.e. um 71% frá því sem er í dag. Talið er að þeim sem eru 80 ára og eldri fjölgi um tæplega 6.600, þ.e. um 55%. Þessar miklu breytingar kalla á aðrar og ólíkar áherslur í heilbrigðismálum þar sem hugsa þarf fyrir þörfum þessa vaxandi hóps.

Því miður hefur vantað mikið upp á að skýr stefna sé varðandi aldraða. Flestar fjölskyldur þekkja þann vanda sem skapast þegar koma þarf öldruðum ættingjum í hjúkrunarrými. Oft eru 250–300 manns á biðlistum eftir slíku rými og þarf þetta fólk að bíða mánuðum saman. Að óbreyttu mun þessi biðtími lengjast til muna. Niðurskurður undanfarinna ára á framlögum til heilbrigðismála hefur komið illa niður á öldruðum. Þjónusta hefur verið skert og lyfjakostnaður aukist. Þessu verður að breyta. Nauðsynlegt er að styrkja heimaþjónustu og stoðþjónustu til muna. Í þennan málaflokk vantar líka skýrari stefnu, hugsun til framtíðar.

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að arðgreiðslur frá Landsbankanum nemi um 7 milljörðum kr. á næsta ári. Meiri hluti fjárlaganefndar bendir á að miklar líkur séu á því að arðgreiðslur frá Landsbankanum verði mun hærri. Það er óhætt að taka undir það. Í ljósi reynslu liðinna ára og athugunar á milliuppgjöri bankans sem af er árinu er líklegt að arðgreiðslur verði allnokkrum milljörðum króna hærri en áætlun gerir ráð fyrir. Engu að síður gætir meiri hlutinn að almennum varúðarsjónarmiðum og leggur því ekki til hækkun á áætlunum um arðgreiðslur. Það kæmi mér þó persónulega ekki á óvart þó að hér skeikaði allmörgum milljörðum þannig að afkoma ríkissjóðs verði í raun mun betri en gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi.

Á gjaldahlið er nú áætlað að hækkun verði um 8,8 milljarðar kr. af margvíslegum tilefnum. Það sem þyngst vegur er endurmat á launagrunni fjárlaga vegna áhrifa kjarasamninga sem samtals leiða til tæplega 5 milljarða kr. hækkunar. Reyndar vegur á móti á þeim lið að verðbólguspá er lækkuð bæði fyrir árið 2015 og í nýrri spá fyrir árið 2016 þar sem nú er gert ráð fyrir að hækkun milli ára verði 3,2% og lækki um 1,3% frá frumvarpinu. Samtals breytast verðlagsforsendur úr 3,8% í 2,2% og lækka því gengis- og verðlagsbætur um 2,3 milljarða kr. vegna þessa. Nettóáhrif launa, verðlags og gengisbreytinga eru því 3 milljarðar kr. til hækkunar.

Af öðrum breytingum vega þyngst margvíslegar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar, samtals að fjárhæð 4,9 milljarðar kr. Þar af er 1 milljarður kr. til aðstoðar við hælisleitendur og flóttafólk, og tillaga er um 840 millj. kr. í tímabundið átak til að stytta biðlista eftir tilteknum aðgerðum í heilbrigðiskerfinu, svo sem kransæðaþræðingum, liðskiptaaðgerðum og augnsteinaaðgerðum. Einnig er lagt til 490 millj. kr. framlag til uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum og 400 millj. kr. til að efla almenna löggæslu, 250 millj. kr. til aðgerða í loftslagsmálum, 280 millj. kr. í rannsóknarverkefni um lifrarbólgu C, 150 millj. kr. til húsafriðunarsjóðs til að styrkja skipulag verndarsvæða í byggð og 150 millj. kr. til rannsókna á sviði ferðamála. Þá er gerð tillaga um 75 millj. kr. tímabundið framlag í þrjú ár til byggingar gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri.

Sérstaklega ber að fagna þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að veita umtalsverðar fjárhæðir til flóttamannahjálpar og til að taka á móti fólki frá stríðshrjáðum svæðum. Við getum ekki skorast undan þeim mikla vanda sem steðjar að í Evrópu þar sem milljónir manna streyma inn frá stríðshrjáðum löndum. Vandinn er þó mun stærri þar sem mikill fjöldi þeirra sem óska hælis kemur frá löndum þar sem stríðsástand er ekki fyrir hendi, ekki síst frá Balkanskaga. Þetta fólk er oft og tíðum að leita að betra lífi, tryggari atvinnu, hærri launum o.s.frv. Hvað á að gera við þetta fólk? Þessi atriði hafa sett álag á hið svokallaða Schengen-samstarf sem gerir ráð fyrir öflugu ytra eftirliti en litlu sem engu eftirliti þegar fólk er á annað borð komið inn fyrir Schengen-landamærin. Það segir sig sjálft að þetta samstarf getur vart haldið áfram öllu lengur nema óheft flæði fólks inn á Schengen-svæðið verði stöðvað sem fyrst. Nú loks á að grípa til aðgerða vegna þessa en við eigum eftir að sjá hvernig til tekst.

Málefni flóttamanna og hælisleitenda tengjast framlögum til þróunaraðstoðar. Þessi framlög hafa verið aukin á undanförnum árum þó að við séum enn langt undir alþjóðlegum viðmiðum. Miðað hefur verið við að aðstoð nemi 0,21% af vergum þjóðartekjum og á grunni þess viðmiðs hafa framlög til Þróunarsamvinnustofnunar verið hækkuð um 690 millj. kr., þ.e. um 50% frá árinu 2011. Meiri hluti fjárlaganefndar vekur réttilega athygli á því að samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum, svokölluðum DAC/OECD-viðmiðum, hefur tíðkast að miða útgjöld til þróunaraðstoðar við hlutfall af þjóðartekjum. Meiri hlutinn bendir á að hlutfallið hefur ekki verið reiknað rétt þar sem stóran hluta útgjalda vegna hælisleitenda ætti að flokka sem þróunaraðstoð. Ef rétt er reiknað er hlutfall Íslands um 0,25% af þjóðartekjum og enn hærra ef verkefni Þróunarsjóðs EFTA sem snúa að flóttamönnum eru meðtalin. Útreikningar af þessu tagi virðast ekki fyllilega sambærilegir milli ríkja en nefna má að annars staðar á Norðurlöndum er verið að draga úr almennri þróunaraðstoð á móti stórauknum kostnaði vegna flóttamanna. Meiri hluti fjárlaganefndar gerir athugasemd við að þetta skuli ekki vera gert hérlendis og get ég tekið undir þá athugasemd. Það er því ljóst að umræða um hlutfall Íslands er ekki byggð á réttum upplýsingum. Ef stjórnvöld ætla að halda sig við markmið um 0,21% eru framlögin mun hærri en því nemur og munar þar nokkrum hundruðum milljóna.

Að auki leggur meiri hlutinn til að bætt verði við gjaldaheimildum í tilteknum málaflokkum. Þar má nefna 400 millj. kr. til hafnarframkvæmda og er sérstaklega fjallað um framkvæmdir á því sviði í álitinu. Þá eru aðrar 400 millj. kr. ætlaðar til uppbyggingar á flugvöllum innan lands og 235 millj. kr. til Vegagerðarinnar. Til Fjarskiptasjóðs eru veittar tímabundið 200 millj. kr. til að hraða uppbyggingu fjarskiptainnviða og loks er gerð tillaga um 100 millj. kr. til heilbrigðisstofnana en önnur hækkunartilefni vega minna. Á móti vegur að ýmis hagræn og kerfislæg útgjöld lækka. Þar munar mest um 490 millj. kr. lækkun til Lánasjóðs íslenskra námsmanna þar sem nýjum lánþegum fækkar og 350 millj. kr. lækkun til Atvinnuleysistryggingasjóðs þar sem atvinnuleysi er nú áætlað 2,9% í stað 3% áður.

Það er sérstakt fagnaðarefni hvað atvinnuleysi hefur minnkað mikið á síðustu árum. Það er brýn nauðsyn að koma sem flestu vinnufæru fólki út á vinnumarkaðinn enda víða þörf á vinnuafli þessa dagana, þökk sé þeim krafti sem er í efnahagslífinu.

Ríkisútvarpið hefur verið í sviðsljósinu undanfarnar vikur og mánuði og hefur krafan um niðurskurð og jafnvel að félagið verði selt að hluta eða í heilu lagi verið fyrirferðarmikil. Sviðsljósinu hefur ekki síst verið beint að útvarpsgjaldinu og hvort lækka eigi það eða ekki. Ríkisútvarpið hefur gegnt mikilvægu hlutverki í íslensku þjóðfélagi í bráðum heila öld. Þetta hlutverk hefur ekki verið bundið við miðlun upplýsinga heldur hefur það líka verið á sviði menningar og afþreyingar svo fátt eitt sé nefnt.

Vægi Ríkisútvarpsins í íslensku þjóðlífi var vissulega meira í árdaga útvarps hérlendis en við skulum varast að gera of lítið úr hlutverki þess í dag. Á hinn bóginn verðum við líka að vega og meta þær breytingar sem orðið hafa á fjölmiðlanotkun okkar, ekki síst með tilkomu tölvunnar og internetsins. Mikilvægi Ríkisútvarpsins þegar kemur að miðlun upplýsinga er ekki eins mikið og áður var. Öryggishlutverk Ríkisútvarpsins hefur ítrekað vakið upp spurningar, ekki síst þegar einkamiðlar hafa verið á undan að koma nauðsynlegum upplýsingum á framfæri við almenning.

Það má líka spyrja hvort ríkismiðill eigi að vera í samkeppni við einkamiðla á auglýsingamarkaði og hvort þeir eiga að keppa við þá í afþreyingarefni. Þetta eru allt mikilvægar spurningar sem við þurfum að svara.

Við megum hins vegar ekki gleyma menningarhlutverki Ríkisútvarpsins, því hlutverki að miðla því sem gerir okkur að þjóð, því sem skilur okkur frá öðrum, því sem gerir okkur að því sem við erum. Sumir segja að við getum nálgast þetta allt á netinu sem er út af fyrir sig rétt, það eru hins vegar miklar líkur á því að menning okkar, tunga og annað þess háttar muni einfaldlega týnast með tímanum ef hún á að felast í kimum internetsins. Ríkisútvarpið hefur ómetanlegt hlutverk þegar kemur að menningu og listum og því að koma þessum hlutum á framfæri. Ég er stuðningsmaður Ríkisútvarpsins en hins vegar er full ástæða til að endurskoða rekstur félagsins með sparnað í huga. Álitamálin hérlendis eru að miklu leyti þau sömu og í nágrannalöndum okkar þar sem ríkisútvarp er við lýði. Kostnaður hefur aukist og breytt neyslumynstur almennings hefur kallað á breytingar. Við megum ekki vera hrædd við breytingar, við höfum mótað okkar stefnu til framtíðar í málefnum Ríkisútvarpsins en að skera niður í framtíðarstefnu er ekki góð stefna.

Staða Ríkisútvarpsins endurspeglast best í útvarpsgjaldinu. Innheimt útvarpsgjald hækkaði á síðustu tveimur árum um 563 millj. kr., þ.e. tæp 18%, sem er mun meira en almennt gerðist með fjárheimildir ríkisstofnana. Um árabil hefur verið ákveðið í fjárlögum að hluti innheimts útvarpsgjalds renni beint í ríkissjóð og því sé ekki að fullu ráðstafað sem framlagi til Ríkisútvarpsins. Þetta er auðvitað ótækt. Gjaldið á og verður að renna til RÚV. Ef það gerist ekki verður að bæta það upp á annan hátt.

Í nefndaráliti meiri hlutans um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 segir eftirfarandi orðrétt:

„Framlög til Íbúðalánasjóðs hafa numið 53,5 milljörðum kr. frá árinu 2009 og að öllu óbreyttu verða framlögin 5,7 milljarðar kr. á árinu 2015. Að þeim meðtöldum hafa framlögin frá árinu 2009 numið svipaðri fjárhæð og byggingarkostnaði nýs Landspítala. Ef ekkert verður að gert munu framlögin halda áfram að aukast um árabil. Vinnuhópur á vegum félags- og húsnæðismálaráðherra hefur skilað skýrslu þar sem bent var á að hagkvæmast væri að hætta starfsemi sjóðsins í núverandi mynd og mundi það að öllum líkindum koma í veg fyrir auknar útgreiðslur úr ríkissjóði vegna hans. Mikilvægt er að stjórnvöld taki ákvörðun sem allra fyrst um framtíð sjóðsins með það að markmiði að koma í veg fyrir frekari útgjöld úr ríkissjóði vegna hans.“

Ljóst er að ekki hefur verið tekið tillit til þessara athugasemda með tilheyrandi kostnaði fyrir skattgreiðendur. Gert er ráð fyrir að enn og aftur komi til framlaga úr ríkissjóði, nánar tiltekið 1.300 millj. kr. á næsta ári. Uppgreiðslur lána halda áfram og verður ekki haldið svona áfram öllu lengur. Brýnt er að niðurstaða fáist varðandi framtíð Íbúðalánasjóðs. Skattgreiðendur eiga einfaldlega heimtingu á svörum hvað það varðar. Ákvarðanataka hefur verið of hæg og nauðsynlegt er að framtíð sjóðsins skýrist í upphafi nýs árs.

Launahækkanir ársins vega þungt í afkomu ríkissjóðs. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur endurmetið þessar hækkanir og að meðtalinni 11% launahækkun á yfirstandandi ári er nú talið að uppsöfnuð launahækkun nemi 16,3% árið 2016 og 19% þegar hækkanir verða að fullu komnar til framkvæmda. Að meðtöldum launahækkunum sem þegar hefur verið gert ráð fyrir í frumvarpinu og endurmetnum áhrifum launahækkana á árinu 2015, á ársgrundvelli, er áætlað að samanlögð útgjaldaaukning vegna launahækkana ríkisstarfsmanna nemi 20,9 milljörðum kr. á árinu 2016. Þá eru ótalin sambærileg hækkunaráhrif bótaflokka almannatrygginga sem eru talin nema 10,1 milljarði kr. og samtals aukast því útgjöld ríkissjóðs um 32 milljarða kr. á næsta ári vegna launa- og bótahækkana. Þar með er ekki öll sagan sögð þar sem ekki hefur enn verið lagt mat á áhrif þessa á hækkun lífeyrisskuldbindinga ríkissjóðs. Stærðargráðu þeirrar fjárhæðar er hægt að nálgast, að vísu með miklum skekkjumörkum, með því að framreikna skuldbindingar eins og þær standa í árslok 2014. Þær námu þá brúttó 667,5 milljörðum kr. og 435,6 milljörðum kr. ef fyrirframgreiðslur ríkissjóðs eru dregnar frá heildarskuldbindingunni. Áðurnefnd 19% hækkun þegar öll áhrif samninganna verða komin fram hækkar þá brúttótöluna upp í 794 milljarða kr., þ.e. um 126,5 milljarða. Endanlegt mat liggur ekki fyrir fyrr en á næsta ári en þessar tölur eru væntanlega ekki fjarri lagi og yrði þá um að ræða langumfangsmestu gjaldfærslu í ríkisreikningi þegar þar að kemur.

Fjarskiptamál brenna á fjölmörgum sveitarfélögum og hefur það glögglega komið fram í heimsóknum sveitarstjórnarmanna til fjárlaganefndar, ekki bara á þessu ári heldur líka á undanförnum árum. Meiri hlutinn leggur til að til viðbótar tillögu í frumvarpinu fái Fjarskiptasjóður 200 millj. kr. til uppbyggingar ljósleiðarakerfa utan markaðssvæða fjarskipta. Við 2. umr. fjárlaga fyrir árið 2015 veitti Alþingi 300 millj. kr. tímabundið framlag í eitt ár til sjóðsins og gerir tillaga þessi því ráð fyrir að hluti þess framlags verði framlengdur. Framlagið fór til hringtengiverkefna á Vestfjörðum og Snæfellsnesi og tengingar ótengdra byggðakjarna samkvæmt gildandi fjarskiptaáætlun. Tillagan í frumvarpinu núna byggist á vinnu starfshóps innanríkisráðherra um úrbætur í fjarskiptamálum, Ísland ljóstengt, og miðast við að mögulegt verði að ljúka þeim uppbyggingaráformum sem hófust árið 2015. Staða fjarskipta er á margan hátt góð hér á landi og virk samkeppni tryggir flestum markaðssvæðum valkosti um stöðugt afkastameiri og öruggari þráðbundnar nettengingar. Sú uppbygging nær þó ekki til um 3.300 lögheimila og atvinnuhúsnæðis í dreifðari byggðum landsins. Uppbygging ljósleiðarakerfa í dreifbýli mun að takmörkuðu leyti eiga sér stað á markaðslegum forsendum. Því þarf að leggja slíku verkefni til fjármuni. Fyrir liggur greining á umfangi og kostnaði markmiðs um aðgengi að nettengingum sem standi öllum til boða óháð búsetu. Takist það er miklum áfanga náð. Unnið er að nánari útfærslu á framkvæmd og fjármögnun tillagna starfshóps innanríkisráðherra sem innlegg í endurskoðun fjarskiptaáætlunar áranna 2016–2026. Samleið með öðrum veituframkvæmdum skilar verulegum ávinningi og dæmi eru um að slíkt hafi leitt til þess að kostnaðurinn við tiltekna framkvæmd í lagningu ljósleiðara hafi ekki orðið nema um 30% af upphaflegri áætlun. Leggja verður áherslu á að styðja við verkefni sem nýta þennan möguleika sem best.

Áætlaður heildarkostnaður við að tengja 3.300 lögheimili með ljósleiðara og ná þar með til 99,9% heimila á landsvísu er talinn nema um 5.200 millj. kr. Sá kostnaður félli þó ekki allur á ríkissjóð heldur yrði samstarfsverkefni markaðsaðila og fleiri. Með auknum fjármunum er því hægt að ráðast í fyrsta áfanga ljósleiðaravæðingar landsins ásamt því að ljúka við verkefni á grundvelli fjarskiptaáætlunar sem felst í tengingu byggðakjarna sem ótengdir eru ljósleiðara. Það verður að líta á það sem mannréttindamál á árinu 2015 að hafa aðgang að góðri nettengingu, að ekki sé talað um hvaða áhrif slíkt hefur á upplýsingaflæði, rekstur fyrirtækja o.s.frv. Því ber að fagna áherslu ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki.

Það er líka rétt að minnast aðeins á samgöngumálin sem víða eru í ólestri. Til að raunhæfar og árangursríkar áætlanir um uppbyggingaráform í samgöngumálum geti staðist þarf fyrst og fremst að lækka vaxtagreiðslur ríkissjóðs og þar með greiða niður skuldir hans. Fáar aðrar leiðir eru áhrifameiri. Með batnandi stöðu ríkissjóðs aukast möguleikar til umbóta í samgöngukerfinu, en fleiri leiða en beinna framlaga úr ríkissjóði verður að leita til viðbótar. Brýn samgönguverkefni eins og tvöföldun Vesturlandsvegar, Sundabraut og breikkun Suðurlandsvegar eru dæmi um verkefni sem vel má leita annarra leiða til að fjármagna og framkvæma og komast sem hraðast áfram. Það er líka nauðsynlegt við endurskoðun samgönguáætlunar að kanna aðra kosti til viðbótar beinna fjárveitinga til þessara vega. Hér er um nokkrar umferðarmestu samgönguæðar landsins að ræða og það er ekki óeðlilegt að kostir fjármögnunar, t.d. með veggjöldum, verði hluti af slíkri fjármögnun. Þó verður að gæta samræmis í slíkri innheimtu þannig að aldrei verði sérstök gjaldheimta á einum anga þess kerfis umfram annan, eins og segir í nefndaráliti meiri hlutans. Ég get alveg tekið undir þau sjónarmið. Við eigum að fara varlega í veggjöld en við megum alls ekki útiloka þau, enda tíðkast þau í fjölmörgum löndum í nágrenni okkar.

Annars staðar á landinu er brýnt vegna umferðaröryggis og byggðamála að reyna að hraða sem mest framkvæmdum á tengivegum. Þúsundir kílómetra af malarvegum eru enn án slitlags. Mikil umferð er á mörgum þessara vega og daglega þarf fólk að sækja vinnu og skóla eftir þeim. Með breyttu atvinnu- og búsetumynstri fjölgar enn þeim sem sækja vinnu um langan veg frá heimili. Með óbreyttum fjárframlögum tekur áratugi að endurbæta vegi og koma á viðunandi samgöngubótum, að sögn meiri hluta fjárlaganefndar. Með sameiningu sveitarfélaga og hagræðingu í rekstri grunnskóla hefur vegalengd og tíma í skólabílum líka aukist verulega víða um land og þarf líka að taka það með í reikninginn.

Ýmsar áhugaverðar breytingartillögur líta dagsins ljós hjá meiri hlutanum. Þannig er til dæmis lagt til 75 millj. kr. framlag til að hefja undirbúning og hönnun að 4.500 fermetra skrifstofubyggingu fyrir Alþingi í stað leiguhúsnæðis og 750 fermetra bílakjallara. Lóð fyrir nýbygginguna er á milli Kirkjustrætis, Vonarstrætis og Tjarnargötu. Nú hefur Alþingi 4.400 fermetra húsnæði á leigu við Austurstræti fyrir nefndir þingsins, þingmenn, þingflokka og starfsmenn skrifstofunnar. Samkvæmt frumkostnaðaráætlun er reiknað með að heildarkostnaður við bygginguna verði um 2,3 milljarðar kr. og að hún verði reist á árunum 2017–2019. Leiga á 4.400 fermetrum undir skrifstofur er óhjákvæmilega mikil, ekki síst þar sem um er að ræða einn dýrasta leigustað landsins, sjálfa miðborgina. Það er því orðið brýnt að sameina þessa starfsemi á einn stað og ekki er að efa að slíkt muni leiða til mikils sparnaðar til lengri tíma litið. Menn geta síðan deilt um teikningar eins og þeir vilja en það getur aldrei orðið aðalatriði málsins.

Við sjáum líka 150 millj. kr. aukafjárveitingu í húsafriðunarsjóð, en Alþingi hefur samþykkt svokölluð verndarsvæði í byggð. Sveitarfélög víða um land hafa áhuga á að skipuleggja og þróa verndarsvæði í samræmi við þessi lög en kostnaður er allmikill og hafa umsóknir um styrki þegar borist til sjóðsins. Þessi viðbótarheimild mun því koma til móts við þessa þörf.

Ég fagna sérstaklega viðbótarfjárveitingum til menntakerfisins þó að þær hefðu vissulega mátt vera mun meiri, bæði til háskóla og framhaldsskóla. Þannig er gerð tillaga um 80 millj. kr. tímabundið viðbótarframlag til Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands sem stofnaður var í júní 2011 í tilefni af 100 ára afmæli skólans. Markmið sjóðsins er að efla rannsóknir og nýsköpun sem nýtist til uppbyggingar atvinnulífs og verðmætasköpunar í þágu íslensks samfélags og þjóðar.

Þá er gerð tillaga um 25 millj. kr. framlag til Háskólans á Akureyri til að fjármagna samstarfssamning við Háskólann í Reykjavík um tveggja ára diplómanám í tölvunarfræði. Fyrirhugað er að samstarfið gangi þannig fyrir sig að nemendur á Akureyri fái fyrirlestra, verkefni og annað efni frá kennara í Háskólanum í Reykjavík eins og fjarnemar en mæti svo samkvæmt stundatöflu í verkefnatíma í Háskólanum á Akureyri með leiðbeinanda eins og dagskólanemendur. Fjarnám er framtíðin og því verður að líta á þetta sem afar jákvætt skref inn í framtíðina og verður forvitnilegt að sjá hvernig til tekst. Til viðbótar fær Háskólinn á Akureyri 40 millj. kr. framlag til þróunar í fjarkennslu sem er angi af sama máli.

Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Bifröst fá hvor um sig 50 millj. kr. viðbótarframlag samkvæmt tillögum meiri hluta fjárlaganefndar og fjölmargir framhaldsskólar fá líka viðbótarframlag samkvæmt þessum sömu tillögum. Mikilvægt er að vanrækja ekki menntakerfið. Niðurskurður á þeim vettvangi mun koma sér illa fyrir okkur sé litið til framtíðar. Ég fagna auknum framlögum en hefði viljað sjá þessar upphæðir talsvert hærri.

Ég hef áður minnst á flóttamannamál. Lagt er til 500 millj. kr. tímabundið framlag til stuðnings við alþjóðastofnanir og hjálparsamtök sem vinna með flóttafólki erlendis, svo sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Matvælaaðstoð Sameinuðu þjóðanna, Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínuflóttamenn og aðrar alþjóðastofnanir og borgarasamtök sem starfa á sviði neyðar- og mannúðaraðstoðar. Tillagan grundvallast á samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 19. september sl. um að verja allt að 1 milljarði kr. árið 2016 til viðbótar við fyrri fjárframlög til að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin vegna fjölgunar flóttamanna og hælisleitenda. Samkvæmt tillögum ráðherranefndar um málefni flóttafólks og innflytjenda er gert ráð fyrir að framlagið skiptist þannig að 500 millj. kr. verði varið til utanríkisráðuneytisins til fjárstuðnings við alþjóðastofnanir og hjálparsamtök á vettvangi, 250 millj. kr. til velferðarráðuneytisins vegna móttöku flóttamanna árið 2016 og afleidds kostnaðar og 250 millj. kr. til innanríkisráðuneytisins til að mæta auknum fjölda hælisleitenda og uppfylla kröfur um málshraða.

Virðulegi forseti. Mikið hefur verið rætt um kjör aldraðra og öryrkja undanfarna daga og hefur staðreyndum oftar en ekki verið snúið á hvolf í þeirri umræðu. Ein fyrsta ákvörðun ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna var að skerða kjör aldraðra og öryrkja og það var gert 1. júlí 2009 skömmu eftir að sú ríkisstjórn tók við völdum. Til að gæta sanngirni er rétt að geta þess að greiðslur til þeirra sem voru á strípuðum töxtum voru ekki skertar heldur hinna sem höfðu tekjur. Ákvörðun um skerðingu á greiðslum til aldraðra og öryrkja var tekin með þeim orðum að hér hefði orðið hrun og að allir yrðu að taka þátt í því.

Núverandi ríkisstjórn hefur sett það í forgang að draga úr skerðingum sem aldraðir og öryrkjar sættu í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar. Eitt fyrsta verk núverandi ríkisstjórnar sumarið 2013 var að afnema þá reglu að lífeyrissjóðstekjur skertu grunnlífeyri. Jafnframt var frítekjumark vegna atvinnutekna, ellilífeyristekna aldraðra og öryrkja hækkað og svo má lengi telja. Þetta þýðir að bætur til aldraðra og öryrkja eru 7,4 milljörðum kr. hærri á ári en ella væri.

Og hvað er fram undan? Bætur til aldraðra og öryrkja munu hækka um 9,7% um næstu áramót. Það kemur til viðbótar 3% hækkun um síðustu áramót sem kostar um 4,3 milljarða kr. Vel að merkja, þetta er hækkun sem aðrir fengu ekki á þeim tíma. Inni í þessari tæplega 10% hækkun um næstu áramót eru tæpir 4 milljarðar sem eru afturvirk hækkun vegna launaþróunar á árinu.

Við skulum fara yfir þetta í stuttu máli. Aldraðir og öryrkjar fengu 3% hækkun um síðustu áramót, þeir fá 9,7% hækkun um komandi áramót og væntanlega munu þeir fá allt að 8% hækkun eftir ár og er þá miðað við spá um launavísitölu. Greiðslur til þeirra hafa fylgt þeirri vísitölu.

Aldraðir og öryrkjar eru ekki ofaldir af sínum greiðslum, svo mikið er víst. Hagur þeirra hefur hins vegar batnað jafnt og þétt og hann mun halda áfram að batna í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það má gjarnan gera enn betur og ég mun vissulega beita mér fyrir því hér á þingi. Ég hef sagt það áður og ég get endurtekið það nú.

Ég fagna þeim breytingartillögum sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt fram. Þær eru jákvætt skref í áttina að betra þjóðfélagi þar sem reynt er að gæta jafnvægis við útdeilingu fjármuna. Breytingartillögurnar eru fjölmargar en oft er það svo að tiltölulega litlar upphæðir geta skipt sköpum.

Hæstv. forseti. Að lokum langar mig að fara nokkrum orðum um fjárlagagerð á Íslandi. Hún hefur valdið mér vonbrigðum í heildina litið. Sjálfstæði Alþingis er afar mikilvægt. Löggjafarþingið verður að hafa síðasta orðið þegar kemur að útdeilingu úr sameiginlegum sjóðum okkar. Núverandi meiri hluti fjárlaganefndar hefur gengið lengra en áður hefur þekkst í að stuðla að þessu sjálfstæði. Við sjáum það bæði á breytingartillögum og eins þeirri umræðu sem orðið hefur í fjölmiðlum þar sem ítrekað hefur reynt á sjálfstæði þeirra sem sitja í fjárlaganefnd. Þrýstingurinn er mikill á viðbótarútgjöld eða niðurskurð frá ráðuneytum, stofnunum, ráðherrum, þingmönnum og óteljandi hagsmunaaðilum fyrir utan þinghúsið. Við slíkar aðstæður þarf sterk bein til að standast oft og tíðum ófyrirleitnar árásir og kröfur þar sem öllum ráðum er beitt. Því miður taka fjölmiðlar allt of oft gagnrýnislausan þátt í þeim dansi. Krafa er um sífellt meiri útgjöld en á sama tíma er jafn hávær krafa um að ríkissjóður skili meiri afgangi. Þetta fer ekki alltaf saman.

Í upphafi ræðu minnar minntist ég á mikilvægi þess að horfa til framtíðar, hafa langtímahugsun við fjárlagagerð. Vonandi náum við því markmiði með nýjum lögum um opinber fjármál. Vonandi tekst okkur að komast úr skotgröfum skammtímahugsunar í fjárlagagerð sem getur jafnvel skaðað okkur til lengri tíma.