145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

lengd þingfundar.

[10:33]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við höfum nú fundað fram á nætur í bæði gær og fyrradag. Ég veit ekki til þess að það sé mikið í pípunum varðandi það að fólk ræði hér saman um lok þinghaldsins fyrir jólin, að menn séu eitthvað að ráða ráðum sínum. Ég vil bara fullvissa forseta um að það er greinilega ekki hér í þingsalnum sem lausnir eru að skapast akkúrat þessa dagana þannig að ég tel mikið óráð af forseta að keyra þennan fund hér inn í kvöldið og nóttina. Ég held að það væri ráðlegra að við hættum á skaplegum tíma núna fyrir helgi og fólk reyndi að stinga saman nefjum og hittast yfir helgina. Við viljum væntanlega í tilefni dagsins halda því til haga að starfsáætlun er lokið í dag. 11. desember er í dag, starfsáætlun er lokið og það er töluvert eftir. Og þó að allir samningar tækjust núna á næsta klukkutíma ættum við (Forseti hringir.) nokkra daga í land með að ljúka þinghaldi fyrir jól þannig að ég hvet forseta til að sýna stjórnvisku í því að leiða saman ólík sjónarmið frekar en að viðhafa hér gamaldags aðferðir um langa þingfundi.