145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

lengd þingfundar.

[10:43]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er svolítið ankannalegt að við skulum vera að ræða það að halda hér þriðja næturfundinn í fjárlagaumræðu sem í ljós hefur komið að er svo marklaus ofan á allt annað vegna þess að fjárlaganefnd hefur gleymt að gera ráð fyrir gríðarstórum útgjaldapóstum eins og kjarabótum kennara. Það kom líka í ljós varðandi fyrirhuguð fundarhöld með öldruðum og öryrkjum að formaður fjárlaganefndar taldi sig ekki hafa talnagögn sem hún hefði þurft að hafa í höndum, sem bendir til þess að tillögur meiri hlutans hafi verið lagðar inn í þingið án viðeigandi talnaforsendna. Það er ekki nóg með að þessi umræða sé orðin of löng eða henni sé haldið kjánalega til streitu með eilífum næturfundum heldur er hún marklaus. Það væri nær að fresta þessari umræðu og láta hv. fjárlaganefnd koma aftur hingað í þingið eftir samráð við fjármálaráðuneytið með réttar forsendur, réttar tölur og tryggja að ekkert hafi gleymst áður en við höldum þessari umræðu áfram.