145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Síðasta sólarhringinn hafa þingmenn fengið þúsundir bréfa frá almenningi í landinu vegna meðferðar í málefnum flóttamanna sem hafa orðið fjölmiðlaefni. Það er risin gríðarleg reiðialda úti í samfélaginu. Það er alveg augljóst af þessum viðbrögðum og þeirri umfjöllun sem málið hefur fengið að það er að myndast gjá milli stjórnvalda í landinu og almennings. Opinberar stofnanir sitja undir mikilli gagnrýni vegna málsmeðferðar einstakra aðila. Það má eiginlega ekki við svo búið sitja, það er þörf á því í samfélagi okkar að halda betur utan um málefni flóttamanna og það er umhugsunarefni hvernig og hvort þingið getur lagt sitt af mörkum í því efni.

Hér virðist það vera á ferðinni að gæta þurfi betur að hagsmunum flóttamanna, leiðbeina þeim betur og aðstoða, en það hlutverk er sem stendur á hendi dreifðra aðila úti í samfélaginu. Útlendingastofnun hefur ákveðið hlutverk, Fjölmenningarsetur, Rauði krossinn o.s.frv.

Ég held að það sem þingið geti lagt af mörkum til bóta í þessu máli sé að leggja til stofnun umboðsmanns flóttamanna. Ég held að tímabært sé að það verði sett á eina hönd að hafa hagsmuni þeirra, leiðbeina þeim og aðstoða í samskiptum við stjórnvöld og stofnanir, m.a. þær sem ég taldi upp áðan. Sú gjá sem er að myndast núna milli stjórnvalda í landinu og almennings vegna sorglegra dæma sem við höfum, þar sem birtast myndir af börnum með bangsann undir hendinni að horfa út í hinn stóra heim á leið úr landi, vekur okkur ekki tilfinningu (Forseti hringir.) fyrir því að við stöndum rétt að málum, virðulegi forseti.


Efnisorð er vísa í ræðuna