145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

störf þingsins.

[11:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég held að við Íslendingar höfum þá hugmynd um okkur sem þjóð að ef við tökum á móti langveikum börnum, hýsum þau í nærri heilt ár, innritum þau í skólakerfið okkar, munum við ekki eftir það vísa þeim úr landi. Þess vegna held ég að mörgum sé brugðið við það sem gerðist núna í vikunni, að fólk hafi einfaldlega staðið í þeirri trú að réttindi barna í þessari stöðu væru tryggð. Sjálfur var ég fyrsti flutningsmaður að lögfestingu á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með Ólöfu Nordal og fleiri góðum þingmönnum og hélt að þau lög og margvísleg önnur lög og reglur í okkar landi tryggðu jafn augljósa hagsmuni barna og hér er um að ræða.

Ég spyr þess vegna formann allsherjarnefndar: Telur hún að lög okkar og reglur í dag eigi að tryggja hagsmuni barna í tilfellum sem þessum og hvort það sé miður að ekki hafi verið látið reyna á það með áfrýjunum eða með því að nota gildandi lagaúrræði? Eða telur formaður allsherjarnefndar að lögin tryggi ekki réttindi barna í þessari stöðu?

Þá spyr ég: Getum við breytt því sem gert hefur verið gagnvart þessum fjölskyldum, en ekki síður: Getum við breytt lögunum til að koma í veg fyrir að þetta gerist nokkru sinni aftur? Eigum við að flytja lagabreytingar, samþykkja þingsályktanir, eða hvaða úrræði sér formaðurinn helst til þess? Getum við bætt fyrir það sem gerst hefur gagnvart þolendunum, börnunum sem um ræðir? Hvernig getum við tryggt það að þetta komi ekki fyrir aftur? Ég held að við öll, þvert á flokka og þjóðfélagshópa, séum sammála um það að við héldum að svona (Forseti hringir.) gerðum við ekki.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna