145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

störf þingsins.

[11:16]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á og ræða um málefni hælisleitenda. Það er auðvitað erfitt að breyta því sem gert er. Ég veit að allir sem sitja í þessum sal hljóta að hafa upplifað þessa atburði eins og sú sem hér stendur. Auðvitað sker það í hjartað að sjá þá birtingarmynd löggjafans sem við sáum í þessari viku.

Ég er sammála hv. þingmanni að það hefði þurft að reyna á túlkun löggjafarinnar fyrir úrskurðarnefndinni, úrskurðarnefndinni sem við sem sitjum í þessum sal settum á fót. Við færðum valdið frá ráðherra yfir í sérstaka úrskurðarnefnd sem þarf auðvitað að fá tíma til að túlka löggjöfina. Við verðum að láta reyna á ákveðin tilfelli. Að öðru leyti get ég ekki tjáð mig um efnisatriði í þessu máli vegna þess að ég hef ekki gögnin undir höndum og þekki ekki nákvæmlega forsendurnar í því, en ég tel að það mikilvægasta sem við gerum í dag sé að fá fram frumvarp innanríkisráðherra um breytingar á útlendingalögum sem þverpólitísk þingmannanefnd hefur skilað af sér til ráðherra. Sú löggjöf á að tryggja fleiri leiðir inn í landið okkar. Ég trúi á opið og lýðræðislegt samfélag. Ég vil gera fólki auðveldara að koma hingað og setjast hér að. Ég tel að það sé mikilvægt fyrir Ísland að fá fleiri vinnandi hendur og fá fjölbreyttari einstaklinga sem geta lagt sitt af mörkum til að gera landið okkar enn betra. Ég trúi einnig á frelsi einstaklingsins til þess að hafa möguleikann á því að efla sig og afla sér tekna. Þá trúi ég því að flestallir Íslendingar séu sammála þessum sjónarmiðum. Þessi sjónarmið sjást í nýja frumvarpinu. Ég væri til í að ganga enn lengra en frumvarpið gengur út á en (Forseti hringir.) aðilar á vinnumarkaði hafa sett fyrirvara við ákveðin atriði (Forseti hringir.) sem leiða það af sér að erfitt er í sumum tilfellum að rýmka reglurnar meira en við gerum í drögunum, (Forseti hringir.) en við sjáum til hvað við gerum í þinginu. Ég vonast til þess að ráðherra leggi málið fram sem fyrst.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna