145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:30]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Þá er komið að því að við ræðum í 2. umr. um fjárlög fyrir árið 2016 og mikið rosalega er það gaman. Ég segi það ekki í neinu spaugi, þvert á móti. Það er mjög skemmtilegt verkefni og það er ekki vegna þess að sá sem hér stendur sé einhver sérstakur talnahaus eða áhugamaður um excel-skjöl eða flókin fjármál heldur er það það sem á bak við liggur, þ.e. málefnið og verkefnin sem opinber fjármál snúast um. Það má segja að fjárlögin séu grunnurinn að öllum þessum verkefnum því að fjárlögin fjalla um debethliðina, um útgjöld til opinberra verkefna til samrekstursins í samfélaginu.

Það er dálítið merkilegt þegar maður hlustar á stjórnarliða og stjórnarandstæðinga ræða málin. Stundum fær maður á tilfinninguna að það sé himinn og haf á milli fylkinga, að sumir vilji engin opinber útgjöld og telji að skattar séu af hinu illa og aðrir séu algjörlega hinum megin. En það er ekki svo einfalt. Það er í raun og veru ótrúlegur samhljómur um stóran hluta af samrekstrinum, stóran hluta af ábyrgð okkar á sameiginlegum rekstri til þess að jafna kjör, til þess að bæta afkomu mismunandi hópa, svæða eða hvað. Þó er grundvallarmunur á því að sumir vilja ganga lengra en aðrir styttra.

Mér finnst gaman að ræða opinber fjármál vegna þess að verkefnin á bak við eru í grunninn og langflest mjög uppbyggileg. Þau eru mjög mikilvæg og það ríkir um þau mikil sátt í samfélaginu þó svo að það mætti stundum halda annað á þinginu. Stærstu og mikilvægustu póstarnir eru heilbrigðismál og önnur velferðarmál. Við erum sammála um að við viljum standa vel að heilbrigðismálum. Við erum sammála um að Landspítalinn sé mikilvæg stofnun og skipti máli.

Það sem er kannski óskemmtilegra í umræðunni um fjárlögin eru þau fjárlög sem liggja fyrir. Fjárlögin eru í eðli sínu þykk bók og þetta er ofsalega flókinn reikningur, enda mjög miklir fjármunir undir og flókin og margvísleg verkefni. Ef maður sýður þetta niður þá er þetta samt alveg eins og hvert annað bókhald. Þetta er í raun alveg eins og heimilisbókhald því að í grunninn er þetta alltaf spurning um plús og mínus, tekjur og útgjöld. Fjárlögin eru útgjöldin, tekjurnar eigum við eftir að ræða.

Eins og allir þekkja sem hafa komið eitthvað nálægt rekstri eða rekið heimili eru tvær leiðir til þess að láta niðurstöðuna enda réttum megin við núllið, til að koma út í það minnsta réttum megin við núllið og enda ekki í skuld. Það er annars vegar að halda útgjöldum niðri og hins vegar að auka tekjur. Eins og við þekkjum sjálf eru takmörk fyrir því hvað maður bætir á sig mörgum aukavinnum og vinnur stóran hluta af sólarhringnum áður en það hættir að vera uppbyggilegt. En það eru líka takmörk fyrir því hversu mikið er hægt að draga úr útgjöldum.

Grunnurinn að gagnrýni minni og gagnrýni okkar í Bjartri framtíð á það hvernig ríkisstjórnin hefur komið að opinberum fjármálum er að lögð hefur verið mjög mikil áhersla á að halda tekjum niðri. Það hafa verið gerðar breytingar til þess að taka út ákveðna tekjustofna, lækka aðra og tilhneigingin hefur því miður verið sú að gera breytingar, stundum til einföldunar, eins og það er orðað þótt ekki megi alltaf sjá einföldunina í þeim aðgerðum. En tilhneigingin hefur verið sú að létta gjöldum af þeim sem eru sterkari fyrir og auka hjá almenningi, því miður. Á sama tíma hefur lækkun á tekjum, eins og ég sagði áðan, plúsmegin auðvitað áhrif á hvað hægt er að gera í útgjöldum.

Þetta kemur fram í 2. málsgrein í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar. Þá er það orðað sem svo: „Afar ánægjulegt er að tekjur ríkisins aukast og þriðja árið í röð stefnir í hallalausan ríkisrekstur.“ Það má alveg taka undir þetta. Það er auðvitað ánægjulegt. Það er mikilvægt að ríkisreksturinn sé í jafnvægi, að það séu hallalaus fjárlög, að ríkið borgi ekki óheyrilega mikið í vexti o.s.frv. En ríkisreksturinn er ekki eitthvert konsept úti í bæ heldur er hann í grunninn þjónusta. Peningar í opinberum fjármálum eru ekkert annað en bensín á þjónustuna og velferðarkerfið. Það að taka annað úr samhengi við hitt er mjög erfitt.

Ég vil taka undir með hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur, framsögumanni 3. minni hluta fjárlaganefndar, sem hefur ítrekað, m.a. fyrr í dag, rætt og gagnrýnt vinnubrögð. Það er eiginlega óþolandi að þrátt fyrir góðan ásetning, og síðast rétt áðan var hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson að tala um að við yrðum að bæta vinnubrögðin, er eins og okkur takist það aldrei. Við erum að ræða á þinginu ítarlegt frumvarp um opinber fjármál þar sem verið er að gera stórar breytingar til þess að auka agann en á sama tíma finnst manni tökin á fjárlagafrumvarpinu og fjármálavinnunni vera að losna.

Það er búið að lengja þann tíma sem þingið hefur til þess að fjalla um fjárlögin en samt tekst ekki að klára vinnuna, leggja fram breytingartillögur á réttum tíma. Það er eins og hinn aukni tími sé aðeins notaður til þess að teygja á málunum og á endanum er verið að vinna breytingartillögur og leggja þær fram seint og um síðir með litlum fyrirvara, í þessu tilviki um helgi, mörgum dögum eftir að það stóð til. Sömuleiðis er verið að gera alveg gríðarlega miklar breytingar á fjárlögum frá því að þau eru lögð fram og þangað til að þau komast hingað inn í 2. umr. Það skeikar um milljarða.

Það er skiljanlegt að sumu leyti í svona stórum og flóknum rekstri að það verði einhverjar breytingar. Þegar verið er að vinna fjárlög að sumri til og fyrri hluta árs og leggja þau fram í september ýmsar breytur eru óljósar. Við vitum ekki nákvæmlega hverjar tekjurnar verða, hvernig efnahagslífið gengur, hvernig kostnaðurinn þróast, hve margir veikjast o.s.frv. En þegar maður skoðar og rýnir í breytingartillögur ríkisstjórnarinnar og breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar þá sjáum við því miður ákveðið stef sem við höfum séð hérna síðustu árin. Annars vegar sjáum við breytingar á áætlunum þar sem má segja að forsendurnar hafi ekki breyst svo stórkostlega heldur hafi hreinlega verið gerð mistök, eins og það var orðað hérna áðan, mistök eða rangar áætlanir í upphafi.

Sumir liðir eru vanáætlaðir, eins og við ræddum í umræðunni um fjáraukalög í vikunni, eða var það í síðustu? Maður ruglast aðeins á næturfundunum. Þar var verið að setja í fjáraukalög framlög til Framkvæmdasjóðs ferðamála sem var fullljóst þegar við vorum að ræða fjárlög fyrir ári síðan að væri vanáætlaður í fjárlögunum þá. Við sjáum þetta í breytingartillögunum núna en síðan, og það þykir mér enn verra, sjáum við í breytingartillögum ríkisstjórnarinnar og meiri hluta fjárlaganefndar tillögur sem eru, hvað eigum við að segja, út fyrir sviga. Þarna eru breytingartillögur um verkefni sem er óljóst af hverju voru ekki upphaflega í fjárlagafrumvarpinu, verkefni í samgöngum, verkefni í byggðamálum, sem mig langar að víkja aðeins að seinna í ræðu minni. Allt í einu dúkka þau upp á þessum hraða og á þessum hlaupum síðustu dagana og kvöldin áður en tillögurnar eru lagðar fram og það er ekki góður bragur á því. Það er sömuleiðis tilviljanakennt og erfitt, alla vega fyrir okkur í minni hlutanum, að átta okkur á rökunum á bak við sumar tillögur í breytingartillögunum þar sem verið er að setja, oft ekki stórar fjárhæðir en 5 millj kr. til þessarar stofnunar, það er verið að styrkja verkefni þarna, en maður veit að það eru margar stofnanir og mörg verkefni þarna úti sem eru ekki valin. Af hverju þau koma fram á þennan hátt í breytingartillögunum er dálítið erfitt að átta sig á.

Sömuleiðis er verið að gera breytingartillögur og setja aukna fjármuni til sumra stofnana vegna yfirkeyrslu eða til þess að dekka væntanlega yfirkeyrslu en það er ekki gert í tilviki annarra stofnana. Það er gert í tilviki stofnana sem hafa verið handvaldar og maður veit ekki almennilega hvort það geti flokkast, og ég reyndar leyfi mér að efast um það, undir vönduð vinnubrögð að nokkrir hv. þingmenn í fjárlaganefnd, með fullri virðingu fyrir getu þingmanna sem eru yfirleitt mikilmenni og jafnvel ofurmenni, taki skyndilegar ákvarðanir og leggi fram breytingar á fjárlögum sem eru búin að vera í löngu ferli. Það er ekki mjög lýðræðislegt og ekki mjög þroskuð eða öguð vinnubrögð

Ég vil gagnrýna það hvernig komið er fyrir okkur. Það getur verið að við Íslendingar séum orðin í eðli okkar óöguð. Það hefur kannski eitthvað með landið okkar að gera. Við erum háð veðri og aflabrögðum og höfum ekki tamið okkur aga eða framtíðarsýn, kannski vegna þess að það hefur verið erfitt í gegnum söguna að treysta á langtímahugsun. En við verðum bókstaflega að temja okkur hana, bæði vegna þess að það er að einhverju leyti hægt en það er líka eina leiðin til að byggja eitthvað upp til langframa. Hvernig er hægt að halda úti mjög mikilvægum kerfum eins og heilbrigðiskerfi án þess að vera með langtímahugsun þar í? Það segir sig sjálft að það getur hvorki verið góð nýting á fjármunum né uppbyggilegt fyrir kerfið sjálft ef við vitum ekki hvert við erum að fara með það og vitum ekki hvað þarf til þess að fjármagna það.

Mig langar aðeins að ræða breytingartillögur sem minnihlutaflokkarnir á þingi sameinuðust um að leggja fram við 2. umr. fjárlaga. Í sumum stórum löndum tíðkast að stjórnarandstaðan leggi fram algjörlega sjálfstætt fjárlagafrumvarp, fullunnið jafnvel, þar sem koma fram aðrar áherslur en hjá ríkjandi stjórnvöldum. Sá siður hefur ekki orðið til á Íslandi, kannski því miður. Það hefur ef til vill eitthvað með það að gera hvað við erum lítil og tiltölulega vanmáttug öll og stjórnarandstöðuflokkarnir hafa ekki endilega burði og getu til þess að koma fram með það sem heilt ráðuneyti og ríkisstofnanir eru að kokka upp yfir allt árið.

Í breytingartillögu minni hlutans er lögð áhersla á nokkur lykilatriði þar sem verið er, vil ég meina, að gera mjög góðar tillögur til þess að bæta það sem fyrir er, vegna þess að það er fullt af útgjöldum og ákvörðunum í fjárlögunum sem eru mjög jákvæð. Fullt af peningum í fjárlögunum fara til Landspítala Íslands og það er mjög jákvætt, vegna þess að annars þyrftum við að loka honum. Við í minni hlutanum erum sammála stjórnendum Landspítalans og getum eiginlega ekki annað en treyst framsetningu þeirra og því að þeir hafi góða stjórn á rekstri sínum. En þó svo að fullt af peningum fari til Landspítalans í fjárlögunum er það ekki nóg. Það eru ákveðin lykilatriði sem vantar í fjárlögunum og við gerum tillögu til þess í breytingartillögunum að fara að ráðgjöf stjórnenda Landspítalans, sem eru ekki frægir fyrir að vera að mylja undir sig eða keyra á einhverjum lúxus, eins og við vitum öll. Við gerum tillögu til þess að bæta í nauðsynlegt viðhald á húsnæði, sem er kannski afleiðing af skorti á langtímahugsun. Landspítalinn, þessi lykilheilbrigðisstofnun landsmanna, var síðast þegar ég vissi rekin í 17 eða 20 einingum, ég hreinlega man ekki fjölda húsa úti um allan bæ, samt ég held að það hafi verið byrjað, alla vega í skipulagslegu tilliti, að tala um nýjan Landspítala árið 1975.

Það hefur tekið okkur í stjórn landsins og á Alþingi 40 ár að ræða það hvernig við byggjum upp nýjan nútímalegan hátæknilandspítala. Ég vona að við séum einhverju nær en við erum ekki lengra komin en svo að það vantar peninga til þess að standa fyrir nauðsynlegu viðhaldi á því húsnæði sem reksturinn er í í dag. Auk þess er áætlað að óhagræðið af því að vera í slæmu húsnæði og dreifðu kosti stofnunina einhverja milljarða á ári. Við gerum tillögu um að bæta í til Landspítalans í raun og veru því sem stjórnendurnir telja lífsnauðsynlegt fyrir stofnunina að fá inn í reksturinn, sem eru 1.400 millj. kr. í nauðsynlegt viðhald og 1.040 millj. kr. í magnaukningu, sem er áætlun spítalans að þurfi til að standa undir þjónustunni. Eins og við vitum mæðir alltaf meira og meira á heilbrigðiskerfinu, bæði er þjóðin að eldast og síðan er getan til þess að aðstoða þá sem veikir eru alltaf að batna, til allrar hamingju. Síðan áætlar Landspítalinn að það vanti 400 millj. kr. til þess að standa við gerða kjarasamninga á næsta ári og við teljum mikilvægt að leggja til að staðið verði undir því.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson talaði í ræðu rétt áðan um að breytingartillögur minni hlutans væru ekki fjármagnaðar. Ég vil mótmæla því vegna þess að við lögðum mikið upp úr því í vinnu og undirbúningi á breytingartillögunum að benda á fjármagn. Ég skal alveg taka undir að þetta eru ábendingar um tekjur sem í flestum tilvikum vantar upp á eða við teljum að hafi verið vanáætlaðar. Þegar við bendum á að arðgreiðslur frá Landsbankanum hafi verið áberandi mikið hærri en hefur verið áætlað í tekjuáætlunum ríkisstjórnarinnar þá þekkjum við ekki niðurstöðuna, við vitum hana ekki heldur áætlum við hana.

Þegar við áætlum betri skattheimtu erum við auðvitað að áætla hana, en það er ekki út í loftið. Það hefur verið talað um að í innheimtu skatta á Íslandi séu tugir milljarða, maður hefur heyrt töluna 80 milljarðar, af sköttum sem löglega ættu að koma í ríkiskassann en koma ekki þangað. Fulltrúar skattyfirvalda hafa komið fyrir þingið trekk í trekk og meðal annars óskað eftir meiri fjárveitingum til að bæta skattheimtu. Þó svo að þessi fjármögnun sé ekki komin í hús, ekki frekar en stór hluti af tekjum sem ríkisstjórnin gerir ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi sínu, þá er hún ekki kokkuð upp út í loftið heldur byggir þvert á móti á miklum líkum.

Við leggjum sömuleiðis til í breytingartillögunum innspýtingu til skólakerfisins og til innviðauppbyggingar í vegakerfinu, í loftslagssjóð, í græna hagkerfið, sem við getum og mundum vilja kalla fjárfestingu í framtíðinni vegna þess að það er hlutverk ríkisins að styðja við möguleika framtíðarinnar. Það að mennta ungt fólk til starfa í þjóðfélaginu er mjög mikilvæg fjárfesting. Það kostar alveg helling. Við vitum öll að menntakerfið kostar mjög mikið og það væri miklu ódýrara að sleppa því en fjárfestingin skilar sér til baka, bæði í hamingjusamari einstaklingum, sem skiptir máli, en líka í öflugra atvinnulífi og á endanum þar af leiðandi betri tekjum fyrir ríkissjóð til þess að standa undir sameiginlegum verkefnum. Þannig að við bætum í þar í breytingartillögunum.

Síðan er langstærsti liðurinn í breytingartillögunum, eins og hefur komið fram og verið talsvert mikið rætt hér, að við leggjum til að 5.305 millj. kr. verði lagðar til viðbótar við hækkun örorku- og ellilífeyris til þess að tryggja það að sá hópur, sem á sér engan samningsaðila í kjörum sínum og er háður framlögum okkar frá Alþingi, sitji ekki eftir heldur fylgi launaþróun lægstu launa. Það verður að segjast eins og er að þetta er svo sjálfsagt mál að það væri þvílík skömm að því að þessi hópur, sem hefur af einhverjum ástæðum minni getu til að hafa áhrif á kjör sín og langflestir innan hans hafa ekki getu til að fara út í atvinnulífið eða auka tekjur sínar, þurfi að lifa við þau kjör sem við höfum séð og rétt hanga og jafnvel hanga ekki í lágmarkslaunum. Það er hálfgerð skömm að því fyrir þetta samfélag.

Mig langaði aðeins að ræða áfram ákveðin atriði sem koma að langtímahugsuninni sem ég nefndi áðan eða ákveðinni tilhneigingu til skorts á langtímahugsun, sem er ágætlega listaður upp í nefndaráliti hv. 3. minni hluta fjárlaganefndar. Þetta eru hlutir eins og lífeyrisskuldbindingar. Við höfum rætt það að lífeyrisskuldbindingar íslenska ríkisins eru miklar. Ýmislegt hefur verið gert til þess að bókfæra þær, sem er vel, en það eru enn þá talsvert margar sem ekki eru bókfærðar, þ.e. við vitum að það er stór reikningur inn í framtíðina sem við gerum ekki ráð fyrir. Við bíðum í sjálfu sér með að taka á því vandamáli á dálítið íslenskan hátt og vonum að það gufi upp í millitíðinni. Það eru ekki góð vinnubrögð.

Það er skiljanlegt að við verðum að bregðast við ófyrirséðum breytingum, stöðu fiskstofnanna við landið eða fjölda þeirra ferðamanna sem láta sér detta í hug að fljúga hingað upp eftir, álverði o.s.frv. En að við búum til óvissu sem hægt er að áætla er ekki gott. Sama má segja um Íbúðalánasjóð og stöðu hans. Hún er því miður ekki sterk og það er óljóst og ekki almennilega tekið á því hver niðurstaðan verður í honum.

Áður en ég lýk ræðu minni langar mig líka til að leggja áherslu á nokkra málaflokka, vegna þess að í þessari þykku bók getum við náttúrlega ekki og ekki ástæða til þess að hver einasti þingmaður fari í gegnum hvern einasta lið. Umræðan er löng og ítarleg til þess að við þingmenn skiptum á milli okkar málaflokkum. En mig langar til að leggja áherslu á og taka undir með fleirum um þá stöðu sem verið hefur í fangelsismálum. Þar er ákveðið neyðarástand sem er mjög mikilvægt að við bregðumst betur við. Fangelsismál skipta máli. Fangelsi og refsingar eiga að vera betrunartæki og við vitum að kostnaðurinn af því að standa okkur illa í fangelsismálum og búa illa að föngum og skila þeim ekki betri aftur til samfélagsins er ekki góður, ekki frekar en kostnaður í heilbrigðiskerfinu sem verður til vegna þess að við höfum ekki staðið okkur í að fyrirbyggja sjúkdóma. Þess vegna er til dæmis gott að sjá innspýtingu í heilsugsæsluna, sem er fyrsta viðkoma sjúkra, þó svo að betur mætti gera. En fangelsismálin eru í miklum ólestri og það er mikilvægt að við horfum sérstaklega á þau.

Sömuleiðis hef ég verið að garfa í málefnum innflytjenda og fólks af erlendum uppruna á Íslandi. Það verður að segjast að sá málaflokkur skiptir meira en litlu máli vegna þess að nýjustu tölur frá Hagstofunni segja að rétt tæplega 8% íbúa Íslands séu fæddir erlendis. Auðvitað eiga einhverjir þeirra íslenska foreldra, einn eða tvo, en langflestir ekki og langflestir hafa þeir annað tungumál en íslensku að móðurmáli. Sá hópur er hluti landsmanna og mikilvægur hluti landsmanna, ekkert síður en aðrir Íslendingar, bæði þegar kemur að atvinnulífinu og samfélaginu almennt. Ég hef áhyggjur af því að við séum að lenda á sama stað og margar nágrannaþjóðir okkar sem hafa ekki hugað nógu vel að þjónustu við þennan hóp, að það verði vandamál. Við þekkjum það sjálf þegar við erum í útlöndum að við stöndum ekki eins vel að vígi og heimamenn.

Þegar maður skoðar fjárlagafrumvarpið, sem er byggt á ákveðnum ramma sem er endurtekinn ár frá ári og síðan fyllt upp í hann, eru sorglega fáir skýrir fjárlagaliðir sérstaklega um málefni og stuðning við málefni innflytjenda á Íslandi. Það fjármagn sem fer í málaflokkinn er dálítið falið inni í safnliðum ráðuneytanna og beinlínis inni í rekstrarfé viðkomandi stofnana. Þegar kemur til dæmis að því að stofnanir standi samkvæmt lögum að túlkaþjónustu fyrir útlendinga sem þangað sækja þá er því miður misbrestur á því að almennilega sé staðið að verki. Sumar stofnanir telja sig hreinlega ekki hafa fjármagn til þess að veita þá þjónustu fullkomlega meðan aðrar stofnanir leggja áherslu á það. En þessi túlkaþjónusta sést hvergi beinlínis í fjárlögunum.

Þetta er enn annað dæmi um það að litlir fjármunir geta breytt alveg afskaplega miklu, einföld stofnun eins og Fjölmenningarsetrið á Ísafirði sem veitir þjónustu við sveitarfélög, félagasamtök og einstaklinga sem koma að málefnum innflytjenda og útlendinga. Sú stofnun er, ef ég man rétt, með 32,2 millj. kr. eða eitthvað svoleiðis á fjárlögum og það er gerð tillaga um að lækka framlögin um að ég held 200 þús., bara í takt við einhverja almenna niðurskurðarkröfu. En sú þjónusta sem verið er að veita fyrir þessa litlu fjármuni skiptir mjög miklu fyrir þá sem þangað leita. Hún skiptir líka alveg rosalega miklu fyrir einstaklingana sem eru að leita að þjónustu sem sveitarfélögin eiga að veita og fá þarna ráðgjöf um hvernig eigi að veita hana. Þarna er ég að tala um hundruð þúsunda og nokkrar milljónir í hinu risastóra samhengi en það að spara á svona stöðum býr aðeins til stóran kostnað seinna, sem er ekki uppbyggilegt.

Þó svo að fjárlögin séu stór, flókin og byggist á peningum sem í eðli sínu eru frekar dauðir hlutir þá er mikilvægt að við gleymum því ekki að þessir peningar, þessar upphæðir, hvort sem þær heita milljarðar, milljónir eða þúsundkallar, eru táknmyndir eða þýðast yfir í þjónustu og starfsemi sem skiptir máli. Á bak við alla þjónustu og starfsemi eru ætlunarverk, verkefni sem þjóðfélagið hefur ákveðið og hv. Alþingi hefur ákveðið og jafnvel lögfest að við skulum sinna. Á endanum er það vegna þess að þau skipta máli fyrir samfélagið og þau skipta máli fyrir einstaklinginn. Þrátt fyrir flækjustigið, þrátt fyrir stærðina er mjög mikilvægt þegar við horfum í fjárlagaliðina, sem eru frekar dauðir þegar búið er að prenta þá á blað, að muna að á bak við liðina býr fólk. Það er mikilvægt að við tökum hið mennska alltaf inn í þegar við ákveðum fjárlög ríkisins.

Ég vil ítreka það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar að svona reikningur er í eðli sínu einfaldur þótt hann sé flókinn. Þetta gengur út á tekjur og gjöld, plús og mínus. Það er ekki gott að halda tekjunum niðri og útgjöldunum þar af leiðandi líka eftir mjög erfið ár frá hruni þar sem velferðarkerfi okkar og helstu stofnanir hafa búið við mjög skert fjármagn. Það var ekki vegna þess að neinum þætti það gaman heldur skildu allir að staðan á Íslandi eftir hrun, staðan á ríkissjóði eftir hrun var slík að það varð að spara. Það var ekkert annað í boði. En núna þegar við sjáum þjóðfélagið rísa og tekjur rísa þá hefur ríkisstjórnin því miður valið þá leið að lækka tekjustofna, valið að skila tekjum í stað þess að endurbyggja stofnanir okkar og velferðarkerfið, sem við í Bjartri framtíð getum ekki tekið undir. Við teljum að mikilvægt sé að byggja stofnanir okkar aftur upp og að það sé á endanum óábyrgt og ávísun á kostnað í framtíðinni að gera það ekki.

Ég hef lokið máli mínu. Takk.