145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil benda á að eftir að mikið var lagt í Fjármálaeftirlitið þá fylgdi því enginn agi. Hv. þingmaður þekkir Sparisjóð Keflavíkur. Það var eftir hrun og gerðist þó að eftirlitsstofnunin væri gríðarlega stór og bankakerfið lítið.

Fjölmiðlanefnd var sett á laggirnar 2011 og hefur stækkað gríðarlega síðan. Hv. þingmaður var líka með dæmi um eftirlitsstofnun sem er mjög nauðsynleg, eins og Geislavarnir ríkisins. Sú stofnun hefur ekkert verið að stækka. Af hverju ekki að gera sömu kröfur til þessara aðila eins og heilbrigðiskerfisins og annarra mikilvægra þátta?

Ég vil líka spyrja, af því að hv. þingmaður er hér með tillögu um að fjármagna útgjaldatillögurnar, annars vegar með 4 milljarða fyrir skatteftirlit og vísar til þess að 80 milljarðar séu úti. Af hverju sækir hann ekki þessa 80 milljarða? Eða bara 60? Er hann að gefa afslátt af þessu? (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Þetta stenst ekki. Þetta er algjörlega ófjármagnað. Þegar hv. þingmenn tala um að mikilvægt sé að hlusta á stofnanir og horfa á faglega vinnu. Ástæðan fyrir því að þessi arður (Forseti hringir.) er kominn inn í fjárlagafrumvarpið er sú að við erum að hlusta og taka mark á Bankasýslunni sem er fagstofnun sem heldur um eignarhlut. Hér eru hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar að fara þvert á þær ráðleggingar og sömuleiðis þvert á allt það sem þeir tala um varðandi fjárveitingar.