145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:08]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið er vitaskuld: Já. Annars mundi ég ekki standa að þessum tillögum. Auðvitað er þetta líka pólitískt plagg. Við erum að segja hvernig við mundum vilja gera þetta. Við höfum sagt það og verið samkvæm sjálfum okkur allt kjörtímabilið þegar við segjum að við vildum hafa óbreyttar tekjur í krónutölu frá því sem áætlað var af veiðigjöldum. Vissulega þyrfti að breyta samsetningu þeirra og við erum reiðubúin að taka þátt í því af heilum hug. Við töldum algerlega raunhæft að halda þeim tekjum sem áætlaðar voru. (Gripið fram í: Þið gerið …) Þetta er okkar stefna og hún endurspeglast í þessu plaggi. Við höfum líka alltaf talað fyrir því að setja meiri pening í skattrannsóknir vegna þess að við teljum að þar sé óplægður akur, ef svo má að orði komast.

Ég vil nefna dæmi. Ég hef talað um það, og fleiri, að stórfyrirtæki á Íslandi, mjög stór alþjóðleg fyrirtæki, eru að koma undan hagnaði í skattaskjól í Evrópu. Það vekur algjöra botnlausa undrun mína af hverju skattyfirvöld og fjármálaráðuneytið (Forseti hringir.) eru ekki að rannsaka þetta mál miklu betur eins og aðrar þjóðir eru að gera. Þarna erum við að draga lappirnar og þarna eru fjárhæðir sem skipta milljörðum, já.