145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:16]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er einmitt málið. Það var akkúrat tíminn rétt áður en uppgangurinn hófst af svona miklum krafti sem var góður til þessara fjárfestinga. Núna erum við að horfa á mjög mikla fjárfestingu í atvinnulífinu, m.a. í gistirými, og stórar fjárfestingar við Húsavík, á Bakka. Í fylgiriti með fjárlagafrumvarpinu segir beinlínis að það muni hafa ruðningsáhrif, muni gera að verkum að sveitarfélög þurfa til dæmis að halda að sér höndum vegna þensluáhrifa. Já, þetta er alveg augljóslega mjög slæm pólitík. Ef maður hugsar lengra, að við förum í gegnum þessa uppgangstíma, ég tala nú ekki um ef við gerum ekkert í gjaldmiðilsmálum eða neitt slíkt og upplifum síðan annað hrun með einhverjum hætti, vonandi ekki jafn dramatískt og það síðasta, má spyrja: Á hvaða stað verðum við þá (Forseti hringir.) með fjárfestingarþörfina og getuna til að fjárfesta?