145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég held hins vegar að hann geti ekki verið mjög svekktur yfir því að menn upplifi ræðu hans sem ekkert sérstaklega bjarta. Hann talar mikið um það að vera að koma út úr skeytasendingunum en í mestu vinsemd vil ég benda honum á að fáir ræðumenn eru með jafn margar skeytasendingar og hv. þingmaður.

Ég hrósa honum þó fyrir að hann sker sig úr þeim vinstri sinnuðu hv. stjórnarandstöðuþingmönnum sem hér hafa talað, hann hefur meiri skilning á blandaðri fjármögnun og fjölbreyttara rekstrarformi þegar kemur að heilbrigðismálum. Ég hef ekki tíma til að ræða það á dýptina en við fáum vonandi tækifæri til að ræða heilbrigðismálin síðan.

Hann talaði um samráð á síðasta kjörtímabili sem ég kannast ekki við, ég veit ekki hvað hv. þingmaður er að tala um og var ég þó á þingi þá, í stjórnarandstöðu. Hann talaði um það samráðsverkefni að ganga í ESB. Hv. þingmaður, ef maður sækir um aðild að ESB er það ákveðin stefna og það sækir ekkert (Forseti hringir.) hugsandi fólk um aðild að ESB nema til að ganga í ESB. Ég spyr: Hvernig getur það verið samráðsverkefni?