145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:24]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst áhugavert hvað hv. þingmaður er ónæmur fyrir forræðishyggjunni sem hann er augljóslega talsmaður fyrir. Hann kemur hingað og segir að það sé augljóst hvað felist í aðild að ESB, væntanlega vegna þess að hann er búinn að komast að einhverri niðurstöðu um það. (GÞÞ: … skýrslum.) Ég hef lesið þær skýrslur (Gripið fram í: Var það ekki …?) og hef komist að þeirri niðurstöðu að aðild að ESB væri góð (GÞÞ: Já, segðu þá frá því.) fyrir Íslendinga. Ég hef sagt fá því í mörgum ræðum, (GÞÞ: … það.) nákvæmlega. Er það ekki síðan bara mjög virkt og fallegt lýðræði og samtal sem á að eiga sér stað í samfélaginu um það á hvora röksemdina þjóðin vill hlusta? (GÞÞ: Að sjálfsögðu.) Er það ekki? (GÞÞ: Jú.) Af hverju klárum við þetta þá ekki, hvað er þá flókið við þetta? Eigum við virkilega að hætta við þetta samráðsferli vegna þess að þér finnst (GÞÞ: Þetta er ekki …) þú búinn að komast að þeirri niðurstöðu að við eigum ekki að ganga í ESB? (GÞÞ: Þetta er ekki samráðsferli, þetta er aðildarferli.) Bíddu, þjóðin mun ákveða á grundvelli samnings en ekki þú, (GÞÞ: Þú ert að blekkja fólkið.) ekki ég og ekki þú —

(Forseti (ÞorS): Hljóð í salnum.)

Ekki ég og ekki þú munum ákveða það, heldur þjóðin. (GÞÞ: Nákvæmlega.) Það væri hollt fyrir þig að tileinka þér þannig nálgun í stjórnmálum. (GÞÞ: Þetta er aðildarferli. Þú ert að blekkja fólk og þú þolir ekki að taka umræðuna um ESB.) (Gripið fram í: Þetta er rosalegt.) [Háreysti í þingsal.] Það er gaman að þessu.