145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

frumvarp um útvarpsgjald.

[14:17]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Varðandi það mál sem hv. þingmaður nefnir hér hef ég áður getið þess í þingsal að það liggur algjörlega ljóst fyrir að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra mundi njóta stuðnings þingflokks Vinstri grænna í því að koma málinu á dagskrá, greiða fyrir því, veita því nauðsynleg afbrigði og hjálpa því síðan í gegnum atkvæðagreiðslu og styðja það til enda. Það liggur fyrir.

Það er náttúrlega eðlilegur framgangur lýðræðisins að meiri hluti þingsins fái að ráða í þessum málum eins og öðrum. En það er alvarleg nálgun á stöðu máls ef mál sem sannarlega á meiri hluta hér í þingsal komist ekki út úr ríkisstjórn vegna einhvers konar valdabaráttu eða meinbægni tiltekinna ráðherra.

Ég verð að taka undir þau sjónarmið að það er alvarleg staða ríkisstjórnar þegar handarbakavinnubrögð eru orðin með þeim hætti að ráðherra málaflokks tilkynnir að mál (Forseti hringir.) séu í pípunum sem birtist síðan ekki og engar skýringar berast á því hvaða togstreita eða valdabarátta (Forseti hringir.) liggur þar að baki.