145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:44]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Samkvæmt skilgreiningu á þróunaraðstoð er þróunaraðstoð tekjutilfærsla frá fólki í einu landi til annars, gerð í þeim tilgangi að minnka fátækt í móttökulandinu, auka hagvöxt og ýta undir þróun. Þetta er einfalda skilgreiningin á þróunaraðstoð. Við það miðuðum við áætlanir okkar um 0,7% þátttöku af vergum þjóðartekjum. Við komumst ekkert upp með það, nema þá innan stjórnarflokkanna, að hækka þá tölu með því að henda einhverju öðru þarna inn. Það er ekki viðurkennt, það er svo einfalt, það er svo skýrt. En við getum gert það. Við getum sett pening í eitthvað annað, en það rúmast ekki innan þessarar alþjóðlegu viðurkenndu skilgreiningar sem við erum skuldbundin af. Ef þeir þingmenn sem bera ábyrgð á þessu skjali halda að þeir geti blekkt alþjóðasamfélagið og önnur lönd með einhverjum svona æfingum þá gengur það ekki upp. Það er ekki hægt þó að maður reyni það og vilji.

Það er fleira tilviljunarkennt en varðandi samgönguáætlun í þessu skjali. Hér eru kostulegar tillögur um að ráðast í að byggja 2,3 milljarða byggingu við Alþingi samkvæmt 100 ára gamalli teikningu af heimavist sem átti að standa á allt öðrum stað. Hvers konar rugl er nú þetta? Hverjum dettur þetta í hug? Jú, það er forsætisráðherra landsins sem lemur það í gegn að hér er texti í þingskjali um að það skuli byggja hús upp á 2,3 milljarða hið minnsta samkvæmt 100 ára gamalli teikningu af heimavist. Vegna þess að hann hefur áhuga á því.

Það er líka texti í þessu skjali þar sem segir að gerð sé tillaga um 50 millj. kr. framlag til að tryggja að ekki komi til hallareksturs Háskólans á Bifröst á næsta ári. Það er einkaskóli. Ég sé ekki svona texta um Landspítalann. Það er opinber stofnun.