145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:27]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hina ágætustu ræðu. Hv. þingmaður fór aðeins inn á það sem fjallað er um í skýrslu rannsóknarnefndarinnar í sambandi við hrunið og fór í fyrri hluta ræðu sinnar inn á þær lexíur sem við hefðum átt að vera búin að læra hér.

Ég hef velt því mikið fyrir mér hvað yfirvöld, og reyndar almenningur, hafi lært eftir hrunið. Nýlega laumaði því einhver að mér að bankakerfið hefði að minnsta kosti lært ýmislegt, og ég fór að velta því fyrir mér. Jú, ætli bankakerfið hafi ekki lært það að það geti orðið hrun en ég velti fyrir mér hvort það lýsi sér endilega í ábyrgari hegðun. Lærdómurinn getur alveg eins verið sá að menn kunni þá betur að forða sér, þegar menn sjá óveðursskýin hrannast upp, frekar en að fljóta sofandi að feigðarósi eins og var fyrir hrun.

Ég velti því fyrir mér hvernig hv. þingmaður sæi fyrir sér einkenni yfirvalda sem hefðu tekið lexíu hrunsins alvarlega og lært eitthvað af því.