145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir það áhugavert dæmi. Fyrir mitt leyti lít ég svo á að vandamálin hafi verið tvíþætt. Það er annars vegar ákveðinn pólitískur barnaskapur sem viðgengst hér og sömuleiðis fjármálalegur barnaskapur.

Mér finnst enn mikið af pólitískum vandamálum til staðar, sér í lagi þegar kemur að samskiptum Alþingis og ríkisins og því sambandi sem þar er á milli, sem ég tel mjög óeðlilegt, eins og ég hef áður farið allnokkrum sinnum yfir. En ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður telji þá að þær lexíur sem hvað helst sitji eftir séu pólitískar eða hagfræðilegs eðlis.

Ég geri ráð fyrir að við samþykkjum bráðum frumvarp um opinber fjármál; ég tel það reyndar til bóta sjálfur, ég veit ekki með hv. þingmann. En hið pólitíska stendur eftir í mínum huga og í ljósi svars hv. þingmanns hef ég áhuga á að heyra meira um það hvort lexíurnar séu meira pólitískar eða efnahagslegar, þær sem eftir eru.