145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:42]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég hef ákveðna samúð með hv. þingmanni. Þetta er ekkert auðveld staða sem ríkisstjórnin er í núna og forusta fjárlaganefndar þessa dagana. Þetta er alveg gríðarlega flókin og erfið staða. Umræðan úti í samfélaginu er ekki beint þannig að verið sé að styðja framgöngu, málflutning eða afstöðu þessara flokka.

Ég skil vel að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson leiti til mín með það að ég tali um að ríkisstjórnin hafi gert vel við þessa hópa. En ég veit bara ekki af hverju ég ætti að gera það.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður og aðrir sem tala hér fyrir ríkisstjórnina tala í stórum tölum, tala um milljarða og prósentur, en tala ekki um veruleika einstaklinga og fjölskyldna sem þurfa að draga fram lífið, fólk sem er að fara að halda jól, (Gripið fram í.) fólk sem ætlar að fara að gefa jólagjafir eða reyna það, (Gripið fram í.) fólk sem getur ekki misst fyllingu úr tönn, fólk sem getur (Gripið fram í.) ekki lent í vandræðum með bílinn sinn vegna þess að það hefur ekki borð fyrir báru. (Gripið fram í.) Þetta er veruleikinn. Þetta er daglegt líf þessa fólks sem snýst ekki um milljarða eða (Forseti hringir.) prósentur.

Það sem þið þurfið að gera er að horfast í augu við að þetta daglega líf er daglegt líf sem skiptir líka máli. (Gripið fram í.)