145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var með afbrigðum áhugaverð ræða og ég þakka hv. þingmanni fyrir hana. Ég vildi óska þess að við hefðum meiri tíma til að ræða þessi atriði sérstaklega vegna þess að þau eru mörg mjög áhugaverð. Ég er sammála sumu og ekki öðru. Sér í lagi er ég sammála því að við eigum að vera hér með ríkisábyrgðargjald vegna þess að ég er hjartanlega sammála því sem hv. þingmaður sagði, það er óhjákvæmilegt að ríkið beri ábyrgð á bönkunum við hrun. Þetta er ekki nýr sálmur, þetta er ekki eitthvað sem uppgötvaðist með hruninu 2008. Þetta er margra áratuga, ef ekki mörg hundruð ára, vitneskja sem menn hafa ef þeir skilja eitthvað í bankakerfinu sem oft er reyndar ekki tilfellið.

Hins vegar velti ég fyrir mér peningaprentuninni sem hv. þingmaður nefnir. Það er umræða sem mér þykir mjög mikilvæg og ég skil vandamálið sem hv. þingmaður benti á, það að einkaaðilar framleiði í reynd peninga í einhverjum skilningi, m.a. með því að búa til skuldir. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi ekki áhyggjur af pólitískum áhrifum á lánveitingar og peningamyndun ef slíkt vald tilheyrir ríkisbanka eða jafnvel ríkinu sjálfu að einhverju leyti.