145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki viss um að ég hafi skilið eitt rétt í ræðu hv. þingmanns og því spyr ég um það. Hann nefndi að áður en bankarnir voru einkavæddir á sínum tíma hafi náttúrlega ríkisbankar séð um peningamyndunina í sjálfu sér. Það var samt sem áður verðbólga á Íslandi. Íslenska krónan hefur aldrei verið frjáls frá verðbólgu. Ég sé ekki hvernig á að vera hægt að koma því að nema með því að skipta um gjaldmiðil, það er að minnsta kosti mín skoðun, einfaldlega vegna þess að hagkerfið er það lítið að ef það á að búa til peninga í samræmi við verðmætasköpun sem ég geng út frá sem forsendu þarf að vera einhvers konar mekanismi til að búa til þessa nýju peninga þegar verðmætasköpun á sér stað, t.d. við miklar tækniþróanir. Ég sé ekki að Seðlabankinn sé í stakk búinn til að taka slíkar ákvarðanir. Með því er ég ekki að segja að einkabankar séu hæfastir allra til þess. Ég efast bara um að Seðlabankinn sé eitthvað betri í því eða nokkur önnur stofnun á vegum ríkisins eða Alþingis.