145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:16]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa góðu spurningu. Hérna voru ríkisbankar en samt voru vandamál. Það var sannarlega verðbólga en bankarnir fóru ekki allir samtímis á hausinn. Þó að ástandið væri slæmt þegar þeir voru ríkisbankar versnaði það enn þegar við einkavæddum þá, peningamagn í umferð 19-faldaðist eftir að þeir voru einkavæddir og hérna varð eitt stærsta hrun á jörðinni, eitt af tíu stærstu bankahrunum í heimi. Það gerðist ekki meðan þeir voru ríkisvæddir þótt þeir væru vissulega slæmir þá. Eitt sem hægt er að gera til að bæta ríkisreksturinn er að tryggja armslengdarsjónamiðin. Þau voru ekki tryggð. Þau voru alls ekki tryggð þegar ríkisbankarnir voru hérna á árum áður, þá var beinlínis ætlast til þess að stjórnmálaflokkar hefðu afskipti af þeim og skipuðu í nefndir þeirra og stjórnir. Það er ekki lagt til hér og alls ekki að hérna verði ríkisbankar, heldur bara að bönkunum sem einkafyrirtækjum sem hafa brjálæðislega hvata til að búa til of mikið af peningum sé ekki gefið vald yfir gjaldmiðlinum, innviðunum sjálfum. Ríkisvaldið verður að tempra þetta beint en ekki með óbeinum aðferðum. Við erum að reyna að tempra peningaframleiðslu (Forseti hringir.) með stýrivöxtum. Við gætum lækkað þá ef við stilltum peningamagnið sjálft.