145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:21]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög góð spurning. Það væri hugsanlega skynsamlegt akkúrat með þetta ríkisábyrgðargjald að nota það til að lækka skuldir ríkissjóðs svo hann væri þá í stakk búinn til að takast á við næsta bankahrun. Hann væri minna skuldugur og það yrði eflaust bót í máli miðað við það að vera með einhvern gervitryggingarmekanisma sem virkar ekki og halda áfram að vera með eitthvert kerfi sem hvetur til sífellt meiri skuldsetningar, virkar í rauninni ekki og er búið að hrynja í 114 löndum, held ég, 144 sinnum frá 1970. Við erum að tala um breytingar á þessu kerfi, því kerfi sem er með alla röngu hvatana, óstýrilátt í eðli sínu og enginn þorir að bæta úr. Þetta er alveg skelfilegt, það er enginn sem vill í rauninni ræða það í alvöru. Ég held að það sé mjög brýnt að þetta þing setji sig inn í þessi flóknu mál. Ég hef lagt fram tillögu með stuðningi þingmanna frá flestum flokkum og vonast til að það mál komist á dagskrá. Þá getum við stofnað nefnd þingmanna (Forseti hringir.) til að setja sig inn í þessi flóknu mál og fjallað síðan um þau á þinginu.