145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Frosta Sigurjónssyni fyrir þessa ræðu sem er ein af þeim betri í þessari fjárlagaumræðu. Þingmaðurinn er afar framsýnn og fór hér yfir þá sýn sem hann hefur, eins og kom fram, um hvar sé hægt að afla frekari tekna fyrir ríkið. Ríkisábyrgðargjaldið er mjög athyglisverð leið og hefur verið haldinn einn fundur í fjárlaganefnd um það. En vegna þess að ræða þingmannsins fjallaði um þessa framtíðarsýn langar mig að spyrja hann: Hvað finnst honum um að greiðslur til lífeyrissjóða sem launamaður vinnur sér inn og framlag atvinnurekenda verði skattlagt í hverjum mánuði eins og hverjar aðrar tekjur (Forseti hringir.) þannig að við náum einhvern tímann núllpunkti í þessa umræðu og að þá sé búið að draga skattana frá þegar lífeyrisþegar framtíðarinnar fara að taka út úr lífeyrissjóðum?