145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:29]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Stórt er spurt, þetta er mjög stór spurning. Við erum að tala um að ef féð yrði skattlagt þegar það er lagt í lífeyrissjóði mundu tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga stóraukast, en um leið að þegar lífeyririnn yrði tekinn út í framtíðinni mundu skatttekjur ekki fylgja. Það gæti þá orðið vandamál þannig að af tillitssemi við sveitarfélög framtíðarinnar og þá sem þurfa að halda uppi ríkisþjónustu hefur sú leið verið farin að skattleggja féð þegar lífeyririnn er tekinn út. Það er líka kannski hagfellt fyrir þá sem greiða í lífeyrissjóði núna og eru með tiltölulega hátt skatthlutfall að jaðarskatturinn verður lágur í framtíðinni þegar þeir taka féð út. Hins vegar hefur sú hugmynd verið rædd hér og kom fram nokkrum sinnum að skattleggja það sem lagt er inn í séreignarsjóði eins og hvern annan sparnað þó að hann sé að vissu leyti bundinn. Það er hugmynd sem mætti skoða sérstaklega.