145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta andsvar. Seint á síðustu öld var þessu fyrirkomulagi breytt. Áður voru lífeyrissjóðsgreiðslur skattlagðar um leið og þær voru inntar af hendi, en nú er búið að breyta þessu í eftirágreiddan skatt. Það sem flækir svolítið þá stöðu sem við erum í núna varðandi eldri borgara sem eru farnir að taka út lífeyri er skattumræðan í kringum það að fólki finnst ósanngjarnt að borga skatta þegar það fær greiðslur úr lífeyrissjóði og Tryggingastofnun. Ég held að umræðan yrði langtum léttari ef þetta yrði tekið af strax og þá er þetta bara inneign sem fólk á þegar það kemst á hinn góða heldri aldur. Lög virka ekki afturvirkt, en ef þessi ákvörðun verður tekin erum við að horfa líka til framtíðarinnar og reyna að losna úr limbói (Forseti hringir.) milli bóta, lífeyrissjóðsgreiðslna og skattkerfisins.