145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:06]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Heilbrigðiskerfið og heilbrigðisstofnanir úti um allt land hafa notið gjafa frá almenningi. Það voru konur sem söfnuðu fyrir Landspítalanum á árum áður. Auðvitað höfum við styrkt kerfið okkar með söfnunarátaki og gjöfum. Það á hins vegar ekki að vera meginstoðin. Ef við horfum til Norðurlandanna erum við svo langt á eftir, bæði hvað varðar rekstur og tækjakaup og viðhald á húsnæði og alla fjárfestingu í kringum heilbrigðisþjónustuna. Ég tíni það til í nefndaráliti mínu að ef miðað er við annars staðar á Norðurlöndum, t.d. í Danmörku, værum við með 14 millj. kr. eyrnamerktar til þessara liða.

Við erum langt á eftir hvað þetta varðar, enda heyrum við fréttir nánast mánaðarlega, jafnvel vikulega, af sveppum og heilsuspillandi aðstæðum, leku húsnæði og guð má vita hverju hjá Landspítalanum. En það er ekki bara þar, þetta er svona víða um landið. Aðstaðan er ekki góð og félagsskapurinn sem við erum í er Grikkland og Mexíkó. Okkur hefur ekki fundist það góður félagsskapur þegar velferðarkerfið er skoðað. Við viljum frekar vera nær Norðurlöndunum. Auðvitað eigum við að stefna þangað en við eigum langt í land, bæði hvað varðar húsnæði og fjárfestingar en líka hvað varðar þjónustu og gjaldtöku af einstaklingum þar sem við borgum mun meira yfir borðið fyrir okkar heilbrigðisþjónustu en gert er á Norðurlöndunum. Við eigum langt í land, við þurfum að búa til stefnu og fylgja henni síðan til lengri tíma.