145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:16]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að stjórnmálamenn takast á um hluti og eru ósammála, en alveg eins og hv. þingmaður benti á áðan er þjóðin sammála um að það eigi að forgangsraða heilbrigðiskerfinu fremst. Við eigum ekki að svelta það heldur sjá til þess að það geti sinnt hlutverki sínu almennilega og við eigum að standa vörð um kjör aldraðra og öryrkja. Þjóðin er sammála um þetta. Það er þjóðin sem velur stjórnmálamenn og vonandi eru menn að ræða það hér í hliðarherbergjum og vonandi er aðeins farið að fara um hv. stjórnarþingmenn þegar þeir sjá hver viðhorfin eru í samfélaginu. Vonandi gerast þeir kjósendahræddir, eins og sagt er, og reyna að finna leið, í það minnsta til að taka á þessum tveimur stóru málum. Látum nú hitt vera, þótt þeir geti ekki hugsað sér að fara eftir góðum áætlunum vinstri stjórnarinnar.