145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:47]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka formanni fjárlaganefndar fyrir hrósið og tek undir með henni, það ber að þakka það sem vel er gert eins og til dæmis að í tillögunni er gert ráð fyrir að ráða sálfræðinga inn í heilsugæslu vítt og breitt um landið. Ég vona að það fylgi með.

Á fundi velferðarnefndar í morgun bentu gestir okkur á að það þyrfti að fjórfalda framlögin til geðheilbrigðismála og þetta væri bara eins og dropi í hafið. Við fögnum hverju skrefi sem tekið er í þessum málaflokki, m.a. þessu. Eins og bent var á á fundinum í morgun vantar til dæmis málefni ADHD-sjúklinga hérna inn og að mati sérfræðinga sem komu til fundarins í morgun mætti hjálpa mjög mörgum með einfaldri sálfræðiráðgjöf á heilsugæslunni og þar með létta á lyfjagjöfum og öðru því um líku. Málefni fanga voru ekki hér inni en þau kalla sannarlega á sérstaka umræðu og vonandi gerist það á milli umræðna.

Ég verð þó að undirstrika að við megum ekki búa svo um hnúta að fjármunum sem er ætlað til geðheilbrigðismála verði varið í einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar. Þetta verður að vera samfélagsleg þjónusta vegna þess að þótt þeir sem glíma við þennan vanda og fjölskyldur þeirra séu ekki endilega tekjulægstu hóparnir, nema síður sé, verður þjónustan að vera svo aðgengileg að hver sem er geti hvenær sem er leitað sér aðstoðar. Það verður að vera þannig að allir hafi tök á að leita sér aðstoðar. Þess vegna skiptir svo miklu máli að setja þetta út í (Forseti hringir.) samstarf ríkis og sveitarfélaga, að þetta komi inn í heilsugæsluna og velferðarþjónustu sveitarfélaga og að þar verði ekki gerður stéttamunur á börnum eða öðrum sem þurfa á þjónustunni að halda.