145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:52]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar fyrir hennar seinna andsvar. Mig langar af þessu tilefni til að minna líka á annan hóp sem þarf sérstaklega að huga að. Mér hafa verið mjög hugleikin börn, fjölskyldur og aðstandendur geðsjúkra. Ég hef bent á að það er bara agnarlítil fjárveiting í fjárlögum næsta árs og að hún fari til einkafyrirtækis sem sinnir mjög afmörkuðum hópi. Stóri hópurinn er eftir og liggur óbættur hjá garði og það þarf að huga að honum þannig að allir fái aðgengi.

Annar hópur sem mig langar sérstaklega að vekja athygli á líka er aldraðir. Í þessari stefnu er lagt til að byggð verði upp þekking í öldrunardeildum sjúkrahúsa á geðheilbrigðisvandræðum eldri borgara. Það er mjög mikilvægt að sú þekking byggist upp og fari jafnframt frá sjúkrahúsum yfir í allar heilsugæslustofnanir og öldrunarstofnanir og að séð verði til þess að alltaf verði til fagfólk sem geti veitt öldruðum sem eiga við geðvanda að stríða aðstoð og að það sé, eins og áður segir, óháð efnahag, að þetta sé almannaþjónusta og almannaþekking vegna þess að þjónusta við geðsjúka má ekki einangrast í einkafyrirtækjum og verða þannig forréttindaþjónusta fyrir fáa útvalda. Hún verður alltaf að verða almannaþjónusta vegna þess að þetta er viðkvæmur hópur og við verðum að sjá til þess að hann fái viðeigandi þjónustu.