145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:05]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það eru ýmis atriði sem mig langar að koma aftur að í annarri ræðu minni um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2016 og mér vannst ekki tími til í fyrstu umferð. Nokkur atriði sem hafa þó borið hér á góma eða komið upp í umræðu undanfarið vil ég líka taka fyrir.

Það fyrsta sem ég nefni eru orðaskipti hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur og hv. þm. flokksbróður hennar, Frosta Sigurjónssonar, hér áðan um fyrirkomulag skattlagningar lífeyrismála. Það lá í spurningu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, að mér fannst, að henni fyndist það koma vel til greina að hverfa frá því fyrirkomulagi sem við höfum núna byggt á í ein 20 ár eða meira að lífeyrisgreiðslur inn í sjóðina væru óskattaðar en síðan greiddu menn skatta af útgreiddum lífeyri þegar til hans kæmi.

Auðvitað er umræða um þetta ekki ný af nálinni. En ég hef á þessu máli nokkuð sterkar skoðanir og ég vil ekki missa af einu einasta tækifæri til að færa rök fyrir tilteknum hlutum í því sambandi og þarf auðvitað ekki flóknar röksemdir til að sýna að þetta er eitt allra stærsta mál Íslands, það er hvernig til tekst með lífeyrissjóðina okkar og hvernig samspil þeirra við skattkerfið og bótakerfið verður á komandi áratugum. Ég held að varla sé til hættulegri eða óábyrgari hugmynd en sú að fara inn og sækja skatttekjur ríkisins af lífeyrisiðgjöldum á leiðinni inn í sjóðina. Ef við gerðum það núna, næstu 10, 15, 20 árin á meðan lífeyrissjóðirnir eru enn að byggjast upp og áður en aldurssamsetning þjóðarinnar hefur tekið þeim breytingum sem hún mun gera, þá erum við að taka risastórt lán hjá framtíðinni og ekkert annað og einfalt er að útskýra það. Það er ósköp einfaldlega þannig að þá værum við að hluta til að fara yfir í gegnumstreymiskerfi. Fyrir það fyrsta þyrftum við að kljúfa lífeyrissjóðakerfið upp, því að við getum ekki blandað saman sköttuðum og ósköttuðum krónum inni í sjóðum, hvorki í ávöxtun né á annan hátt, og það yrði talsverður hausverkur að kljúfa lífeyrissjóðakerfið eins og það leggur sig algerlega í tvennt, fyrir og eftir breytingu.

Í öðru lagi er það þannig að nú er fólk á eftirlaunaaldri á Íslandi um 12% af íbúunum, ef ég veit rétt, en stefnir í 20% innan ekki svo langs tíma, kannski 25–30 ára. Þá ætla ég að leggja þessa spurningu fyrir þingmenn: Hvernig mundum við ætla að ráða við útgjöldin sem þýða að þessari gjörbreyttu aldurssamsetningu eftir segjum 30 ár, ef þá væru skatttekjur ríkisins af útgreiddum lífeyri að hverfa og ef við værum búin að nota þær tekjur allar fyrir kynslóðirnar á undan, þá værum við að senda þeim sem greiða skatt eftir 30 ár reikninginn? Þeir skulu takast á við útgjöld heilbrigðiskerfisins, félagsþjónustunnar og annarra slíkra hluta vegna stóraukins hlutfallslegs fjölda aldraðra inni í framtíðinni. Það er varla til hættulegri eða óábyrgari hugmynd en sú að seilast í framtíðartekjur kynslóðanna með þessum hætti einmitt á tímum þegar aldurssamsetning þjóða er að taka breytingum.

Frændur okkar og vinir, Færeyingar, rötuðu því miður í hendurnar eða lentu í klónum á óábyrgri hægri stjórn sem breytti færeyska fyrirkomulaginu nákvæmlega eins og þessi hugmynd gengur út á. Ef það er hættulegt fyrir okkur Íslendinga, þá hef ég enn þá meiri áhyggjur af því þar vegna þess að Færeyingum gengur, ef eitthvað er, enn verr að halda sínu unga fólki heima eða fá það til baka eftir nám. Færeyjar eru eldra samfélag en við og aldursumbreytingarnar eða líffræðilega þróunin er lengra gengin í Færeyjum en hjá okkur. Þar er það þannig að þetta kemur jákvætt út á tilteknu árabili. Það gerir lífið þægilegra fyrir þá kynslóð sem hrindir breytingunni af stað, á meðan hún er að fá samtímaskatttekjurnar af inngreiðslunum og situr ekki uppi með útgjöldin af vaxandi fjölda eftirlaunaþega. Besta tryggingin fyrir því að við á Íslandi munum ráða við útgjöldin og það krefjandi hlutverk að búa sómasamlega að öldruðum, þegar þeir verða orðnir kannski fimmtungur eða fjórðungur af þjóðinni, er að þá falla til vaxandi skatttekjur til ríkis og sveitarfélaga af útgreiðslum lífeyris þess hóps. Hver kynslóð tekur með sér sparnaðinn, hann safnast upp og hún borgar síðan skatta af honum þegar hún nýtur lífeyrissparnaðarins. Meðan ég stend hér með lífsanda í nösum í ræðustól á Alþingi mun ég tala harkalega gegn þessu.

Þessar hugmyndir komu upp í kringum hrunið 2008–2009 og létu á sér kræla. Sumir gengu svo langt að vilja fara beinlínis inn í lífeyrissjóðina eins og þeir eru í dag og sækja þangað hinn óskattaða hluta til að nota, milda höggið af kreppunni, sögðu menn, en þá hefðu þær tekjur ekki verið þar í framtíðinni, þegar vaxandi fjöldi þarf umönnun og umhlynningu í framtíðinni. Hverjir hefðu þá borgað fyrir það? Skattgreiðendur komandi áratuga. Þá er þetta orðið að aðferð til að henda reikningum inn í framtíðina og ekkert annað, hefur aldrei verið annað og mun aldrei verða neitt annað. Menn geta þá alveg eins verið heiðarlegir og sagt að þeir vilji bara taka lán til að hafa það gott í núinu og láta börnin og barnabörnin borga það.

Í öðru lagi vil ég segja vegna þess goss sem hv. þm. Brynjar Níelsson tók hér í gær, ef ég man rétt, og nefndi mig til sögunnar og fjölmiðlar hafa að gamni sínu tekið það upp. Hv. þingmaður fór mikinn í því að segja að það væri, ég held að hann hafi hreinlega sagt hræsni, að sá sem hér stendur leyfði sér að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að ætla að hafa af öldruðum og öryrkjum sambærilegar kjarabætur á þessu ári og aðrir landsmenn hafa fengið af því að við hefðum gert þá hluti sem við gerðum á vormánuðum 2009. Þar með hefði maður bara ekki leyfi til að gagnrýna ríkisstjórnina. Það væri nú gaman að hafa hv. þm. Brynjar Níelsson í salnum, fyrrverandi formann Lögmannafélagsins, því hann þarf nú að þola, sá maður, að á honum sé tekið stundum eins og hann fjallar oft um aðra.

Ég tel það ekki hræsni að benda á þá augljósu staðreynd að ríkisstjórnin enn sem komið er og stuðningslið hennar ætlar að hafa kjarabætur af öldruðum og öryrkjum á þessu ári svo nemur verulegum fjárhæðum umfram það sem aðrir hafa þegar fengið. Og ekki bara á þessu ári, heldur gerðist það sama í fyrra líka og reyndar lítillega í hittiðfyrra. Ef við tökum þetta í tölum þá er það þannig að um áramótin 2012–2013, 1. janúar 2013, hækkaði grunnlífeyrir og tekjutrygging almannabóta um 3,9%. Þegar upp var staðið hafði launavísitalan á árinu 2013 hækkað um 5%. Þarna var gliðnun, að vísu ekki mikil, þetta er skásta árið, það munar rétt liðlega einu prósentustigi en það er þó þannig að það hallar aðeins á elli- og örorkulífeyrisþega ef við skoðum hækkun bóta borið saman við meðalhækkun launa.

Á árinu 2014 hækkaði lífeyririnn um 3,6%. En hver var niðurstaða launavísitölunnar? 6,7%, munaði rúmlega þremur prósentustigum hvað launin hækkuðu að meðaltali meira en grunnfjárhæðir bótakerfanna. Hvernig er þetta í ár, árið sem við deilum nú um? Jú, ríkisstjórnin af rausnarskap sínum hækkaði bæturnar um 3%, grunnfjárhæðirnar um 5.649 kr. 1. janúar síðastliðinn. En launavísitalan stefnir væntanlega í að hækka aftur um ein 6,5–7%. Hvernig er þá þróunin orðin yfir þau tvö ár sem ríkisstjórnin ber sannanlega ábyrgð á þessu? Skiptir ekki miklu máli hvort við tökum árið 2013 með. Það má alveg segja að það sé þá á okkar ábyrgð. Þá er þetta þannig að samtals á þessum tveimur árum núverandi ríkisstjórnar, 2014 og 2015, hafa bæturnar hækkað rétt um 6,6%, ef við notum þá einföldu aðferð að leggja prósenturnar saman en það er náttúrlega „stærðfræði“ eins og menn þekkja, en launavísitalan um 13%. Þessi gliðnun er þarna, kjaragliðnun. Hverju lofaði Framsóknarflokkurinn fyrir síðustu kosningar? Ekki bara að aflétta öllum skerðingum frá tíð fyrri ríkisstjórnar, sögðu þeir. Nei, þeir tóku sérstaklega fram í kosningaloforðum sínum og auglýsingum að það ætti að leiðrétta kjaragliðnunina. Það var ekki skilið öðruvísi en svo að það ætti að fara aftur til tímans 2009 og bæta elli- og örorkulífeyrisþegum að fullu, ekki bara afnema allar skerðingarnar heldur líka hífa þá upp á sama stað þannig að engin kjaragliðnun væri á ferðinni. En þetta hefur ríkisstjórnin ekki gert. Hún hefur ekki aðeins vanrækt að standa við loforðið um að leiðrétta kjaragliðnun frá síðasta kjörtímabili, hún er að horfa aðgerðalaus á kjaragliðnun á hverju einasta ári síns starfstíma og ætlar að gera það áfram á næsta ári ef eitthvað er. Þetta eru staðreyndir málsins. Þetta eru tölurnar, fyrir utan það að mér finnst að talnaupplestur og möntrur stjórnarliða í gær og í dag og í fyrradag fyrir neðan allar hellur. Þingmenn ganga hér með lyfseðil frá fjármálaráðuneytinu upp á vasann og lesa upp talnaþulur um milljarða og milljarða og prósentur og prósentur og bera það saman við — hvað? Bera það saman við þróun verðlags. Það er alltaf þannig. Við höfum heyrt þau koma í ræðustólinn í gær og í dag og bera þróun lífeyrisgreiðslnanna saman við þróun verðlags. Af hverju nota þau ekki samanburðinn við launavísitöluna? Það er af því að þau þora ekki í þann samanburð og þau eru að reyna að láta þetta líta vel út með því að blanda þróun vísitölu neysluverðs inn í þetta sem á ekkert erindi inn í þann samanburð vegna þess að andi 69. gr. almannatryggingalaga er alveg skýr og hann er sá sami og laganna um atvinnuleysisbætur, að það er launaþróunin sem á að miða við. Menn nota sér það að það er öryggisventill í greininni um að þó skuli bæturnar aldrei hækka um minna en verðlag, hann er til þess að komi upp þær aðstæður að laun hækki minna en verðlag þá skal hið síðara gilda, en ekki til að misnota hann í villandi samanburði af þessu tagi.

Hæstv. ríkisstjórn ætti að horfast í augu við það að hún hefur ekki málstað að verja í þessum efnum. Hún er búin að koltapa umræðunni og hv. þm. Ásmundur Friðriksson á heiður skilinn fyrir að viðurkenna það. En hann fær skammir héðan úr ræðustólnum frá flokkssystkinum sínum eða systkinum í stuðningsliði stjórnarinnar fyrir það. Nær væri að taka ofan fyrir honum. Ég verð að segja að það er með dapurlegri upplifunum hér að hlusta á hæstv. félagsmálaráðherra koma hingað upp og lesa möntruna frá fjármálaráðherra, fara með talnasúpuna, leggja saman milljarðana og reyna að rugla menn í ríminu með því að bera þetta saman við verðlagsþróun. Sama gerði 1. varaformaður velferðarnefndar í dag. Af hverju láta menn ekki bara hæstv. fjármálaráðherra sjálfan lesa möntruna sína, er það ekki í lagi? Mér hefði liðið betur með það að félagsmálaráðherra eða 1. formaður velferðarnefndar hefði þá að minnsta kosti gefið í skyn að þeim liði aðeins illa með þetta innra með sér. Mér fannst það bara ónotalegt að það fólk sem maður var að vona að menn gætu reitt sig á talaði með þessum hætti.

Málsvörnin um að bera þetta síðan saman við aðstæður á vormánuðum 2009 þegar lá nú ekki einu sinni ljóst fyrir hvort Ísland yrði gjaldþrota eða ekki er nú náttúrlega alveg kostuleg, auk þess sem þá var ekkert um að ræða grunnlífeyrinn. Það sem þá var gert snerist um auknar tekjutengdar skerðingar og menn vönduðu sig við það eins og þeir gátu, að reyna þó að útfæra þann sparnað sem menn þóttust sjá að yrði líka að ganga að einhverju leyti yfir þetta kerfi, að hann færi þannig fram að það væru þeir best settu sem bæru hann. Auðvitað var þá eina leiðin að gera það í gegnum tekjutengdar skerðingar, að þeir tækju meira á sig sem hefðu umtalsverðar aðrar tekjur og verja hina sem ekkert höfðu annað, og það var gert. Það var fullkomlega gert í gegnum allt hruntímabilið. Það var ekki hróflað við tekjutryggingunni, afkomutryggingunni miðað við framfærsluviðmiðin og grunnfjárhæðirnar voru ekki skertar með þeirri undantekningu þó að þær voru frystar eins og allt annað á árinu 2010 svo það sé auðvitað viðurkennt. Síðan voru kjarasamningar teknir að fullu inn í þetta á árinu 2011. Auðvitað var þetta erfitt, auðvitað þótti okkur þetta ekki gaman sem á því bárum og berum pólitíska ábyrgð, en ég segi fyrir mitt leyti að í ljósi þeirra aðstæðna sem við var að glíma og þess sem við urðum að gera, þá skammast ég mín ekki fyrir það. Ég gengst við pólitískri ábyrgð á því en ég tel að við höfum gert það sem var óumflýjanlegt.

Hvað var í vændum fyrir alla aðra? Muna menn það ekki? Skattahækkanir og umtalsverð tekjuöflun á aðra hliðina, sem að vísu lagði byrðar á þá tekjuhærri, sem betur fer, og eignameiri eins og við reyndum að gera og hinum megin verulegar sparnaðaraðgerðir alls staðar í öllu heila kerfinu.

Stóra myndin í afgreiðslu þessara fjárlaga er dapurleg. Það er alveg kostulegt að heyra stjórnarliða koma hingað upp og reyna að berja sér á brjóst yfir því að þeir séu að fara að skila hér einhverri glæsilegri niðurstöðu með innan við 10 milljarða afgang á ríkissjóði á árinu 2016. Ég sagði í gær að auðvitað ætti við þessar aðstæður í hagsveiflunni, á 5. eða 6. ári hagvaxtar í röð, að skila myndarlegum afgangi af ríkissjóði. Við ættum að vera að styrkja undirstöðu ríkisrekstrarins. Undirliggjandi rekstur ríkisins ætti að vera kominn í gott horf úr því að tókst að ná honum í jöfnuð á árinu 2013. Eða hvenær á ríkissjóður að vera rekinn með marktækum afgangi ef ekki á 5. eða 6. ári í uppsveiflu, í hagvexti? Þá er lítið borð fyrir báru ef slær í bakseglin, herra forseti. 9 milljarða afgangur, eins og þetta er komið niður í núna eftir að menn fundu 1,2 milljarða sem þeir gleymdu einhvers staðar í gær, sem segir nú sína sögu um óðagotið í vinnubrögðum og þá er þetta orðinn 9 milljarða afgangur. Hann er innan skekkjumarka. Við vitum það öll sem höfum eitthvað glímt við þessi mál. Hann er svo lítill, 1,2–1,3% af niðurstöðutölu fjárlaga, innan við 0,5% af vergri landsframleiðslu og það má ósköp lítið breytast til að hann hverfi allt í einu ef eitthvað örlítið slær í bakseglin. Auðvitað gæti hann orðið meiri, það er óvissa á báðar hliðar, en það er nú svona.

Er ég einn um þá skoðun að þetta sé ekki árangur í ríkisfjármálunum til að hrósa sér af? Nei, það er ekki svo, herra forseti. Það er nú ekki oft sem ég fer með Morgunblaðið í ræðustól. Ég geng ekki með það á mér dagsdaglega. En það varð fyrir mér að líta á forsíðuna hérna frammi áðan. Og hvað gefur þar að lesa, á forsíðu Morgunblaðsins? Þar er verið að tala við Þorstein nokkurn Víglundsson og hvað segir hann? Hann hefur þungar áhyggjur af þessu, ég verð að segja það. Nei, hann sagði það reyndar ekki, það var annar maður sem tók þannig til orða. En hann hefur áhyggjur af því að þróun útgjalda hjá ríkinu sé ekki í samræmi við það sem lagt hafi verið upp með í gerð kjarasamninga, það sé þessi umfangsmikli ríkisrekstur sem leggi þungar byrðar á atvinnulífið og þrengi að svigrúmi til skattalækkana á næstu árum. Þarna er talað af sjónarhóli hægri manns augljóslega. Svo kemur, með leyfi forseta:

„„Þetta er enn alvarlegra mál en að það varði aðeins kjaramálin. Það er búið að leggja slíkar byrðar á rekstur ríkissjóðs að ríkið verður að bregðast við með verulegri hagræðingu.“ — Svo kemur það sem ég ætla aðallega að vitna í. — „Á þessum stað í hagsveiflunni ætti að vera góður afgangur af ríkisrekstrinum,“ segir Þorsteinn.“

Þetta er nákvæmlega það sama og ég sagði í gær og erum við þó ekki pólitískir skoðanabræður, ég og Þorsteinn Víglundsson. En við erum hjartanlega sammála um þetta. Á þessum stað í hagsveiflunni ætti að vera góður afgangur af rekstri ríkisins.

Og áfram er haldið:

„Hann telur aðspurður að með sama áframhaldi verði „ríkið komið í umtalsverðan hallarekstur“ þegar hagvaxtarskeiðinu lýkur.“

Það er aftur nákvæmlega það sama og ég sagði í ræðu minni í gær. Þetta er ávísun á það að um leið og hagsveiflan breytist, um leið og slær eitthvað í bakseglin þá er kominn halli á ríkissjóð. Það er bara þannig. Það er enginn „buffer“, það er enginn varasjóður þarna á ferðinni á meðan afkoma ríkissjóðs er ár eftir ár í járnum. En það er það sem, því miður, núverandi ríkisstjórn er að takast að gera. Eftir stórfelldan bata í afkomu ríkisins á hverju einasta ári frá 2008 er henni að takast að hjakka í sama farinu þrjú ár í röð þar sem undirliggjandi rekstur ríkisins að frádregnum óreglulegum liðum er rétt við núllið. Það er allt og sumt.

Herra forseti. Enn sé ég það að ýmislegt sem ég ætlaði mér að koma inn á hefur ekki komist að. Ég ætlaði að fara aðeins betur yfir fjárveitingar til Landspítalans, heilbrigðismálin og fleira í þeim dúr, en það verður að bíða betri tíma um sinn.