145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég er svolítið að velta fyrir mér viðhorfum hv. þingmanns til ágætrar ræðu sem við heyrðum frá hv. 2. þm. Reykv. n., Frosta Sigurjónssyni, en hann flutti ræðu sem hann vildi meina að væri milljarður á mínútu í sparnaði, þ.e. í leiðum til að auka tekjur ríkisins. Hann tók 20–30 mínútur í það að útskýra hvernig við gætum aukið tekjur ríkisins um 20–30 milljarða á ári.

Það var einn punktur þar inni sem ég er afskaplega sammála hv. þm. Frosta Sigurjónssyni um og mig langar að spyrja hann út í en hann var um ríkisábyrgðargjald frá bönkunum til að hægt sé að verja hagkerfið þegar á bjátar. Nú er ekki opinberlega ríkisábyrgð á bönkunum en eins og hv. þm. Frosti Sigurjónsson sagði, og ég er sammála, þá er óhjákvæmilega ríkisábyrgð á bönkunum. Ég velti fyrir mér hvað hv. þingmanni finnist um þann lið.