145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:26]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýddi sömuleiðis með athygli á ræðu hv. þm. Frosta Sigurjónssonar og fannst hún með þeim athyglisverðari sem hér hafa verið fluttar. Ég hef setið í nefnd með hv. þingmanni, í efnahags- og viðskiptanefnd í tvö ár, og þekki ágætlega til viðhorfa hans. Þar á meðal er þetta sem ég verð að viðurkenna að ég hef verið hugsi yfir og er kannski að verða smátt og smátt meira og meira sammála hv. þm. Frosta Sigurjónssyni um, að í reynd sé veruleikinn sá að de facto er ríkisábyrgð á innstæðum í bönkum. Það hefur reynslan kennt okkur. Ef á bjátar treysta menn sér ekki til að láta þær tapast. Það var reynslan hér og það hefur orðið reynslan eiginlega alls staðar annars staðar með þeirri undantekningu að á Kýpur skáru menn ofan af innstæðunum. Er þá ekki best að horfast í augu við það og segja bara að þetta sé ríkistryggt og þá borga menn fyrir það?

Ef við kæmumst upp með það eða við skulum segja komumst upp með það gagnvart hinu evrópska regluverki sem við erum bundin af, þ.e. „dírektívinu“ um innstæðutryggingar, þá held ég að það væri að mörgu leyti nærtækast að breyta iðgjaldagreiðslunum í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta yfir í ríkisábyrgðargjald sem við létum allar innlánsstofnanir borga.