145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá langar mig inn á annan þátt þar sem ég er ekki mjög sammála hv. þm. Frosta Sigurjónssyni, eða öllu heldur tel ég það, en hann vildi finna leið til að lækka stýrivexti Seðlabankans um 1%. Auðvitað þætti mér ágætt að Seðlabankinn lækkaði stýrivextina en mér finnst hins vegar mjög óþægilegt þegar þingmenn eða stjórnmálamenn almennt fara að skipta sér af stýrivöxtum. Með því er ég ekki að segja að seðlabankar séu alvitrir, eða reyndar nokkrar stofnanir yfir höfuð, en hv. þingmaður lagði til hugmynd sem ég átti svolítið bágt með að skilja sjálfur í sambandi við það hvernig væri hægt að gefa Seðlabankanum tæki til að beita í stað þess að hafa háa stýrivexti. Hann fór réttilega yfir það hvernig háir stýrivextir geta einnig verið efnahagsleg ógn en hann sá fyrir sér að hægt væri að spara ríkinu um 3–4 milljarða í vaxtagjöld af skuldum sínum ef slík breyting kæmi til. (Forseti hringir.) Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður, þar sem hv. þm. Frosti Sigurjónsson er ekki á staðnum eins og er, geti eitthvað frætt okkur um þessa nálgun.