145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:31]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni mjög góða ræðu. Hann kom inn á margt sem væri hægt að skoða og rökræða. Hann endaði ræðu sína á því að tala um stóru myndina og vitna í Þorstein Víglundsson í Morgunblaðinu í dag varðandi það hvernig við sjáum fyrir okkur afgang á fjárlögum eftir því hvar við erum í hagsveiflunni.

Ég er hjartanlega sammála því að æskilegast væri að við skiluðum myndarlegum afgangi en eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni neyddumst við óhjákvæmilega til að fara í niðurskurð til að bregðast við þeirri stöðu, þeirri kreppu sem uppi var. Það þurftu allir að taka á sig byrðar, m.a. eldri borgarar og öryrkjar í frítekjumarki og skerðingum sem er verið að vinda ofan af. (Forseti hringir.) Það er bara staðreynd að hér þarf að bæta verulega í á útgjaldahliðinni þrátt fyrir að tekjur séu að aukast, þannig að þetta er snúin staða. (Forseti hringir.) Er ekki rétt að fara mildilega í þetta og reyna að bæta í grunnþjónustu?