145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Jú, ég tók það líka sérstaklega fram til dæmis í ræðu minni í gær að ég er ekki að gagnrýna ríkisstjórnina sérstaklega fyrir það að hafa ekki beitt meira aðhaldi eða skorið niður. Ég á erfitt með að benda á eitthvað þar sem ríkisstjórnin hefur þó aukið fjármagn sem ég tel ekki að hafi verið full þörf fyrir.

Það helgast ósköp einfaldlega af því að við vitum að það hefur safnast upp mikil þörf víða og enn mætum við henni ekki einu sinni alls staðar þar sem hún er til staðar, eins og í fjárfestingum í innviðum og öðru. En ég hef auðvitað gagnrýnt harkalega frá fyrsta degi það hve ríkisstjórnin hefur sleppt miklum tekjum fyrir borð. Það er þannig að ef ríkisstjórnin hefði ekki gert það, ef hún hefði haldið skattlagningarstiginu, ekki endilega öllum sömu sköttum en heildarskattlagningarstiginu á sama stað og það var á árinu 2013 þá værum við með 40–50 milljörðum meiri tekjur inni. Gott og vel, ef menn vildu endilega leggja niður auðlegðarskatt af því að þeir vildu vera góðir við auðugasta prósentið í landinu, af hverju ekki að reyna að finna aðra tekjuöflun í staðinn ef mönnum fannst hún betri? (Forseti hringir.) Það er það sem ég gagnrýni og það er það sem er að og þess vegna er ekki sá 30–40 milljarða afgangur á ríkissjóði sem ætti að vera.