145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:35]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins um skattana áfram. Þetta að menn séu alltaf að einfalda og það séu orðin sjálfstæð efnisrök að menn séu að einfalda skattkerfið, má þá bara gera hvað sem er, er það þannig? Má þá lækka skatta í þenslu og þegar hagkerfið er að byrja að hitna og má þá reka ríkissjóð á núlli í bullandi uppsveiflu í hagkerfinu, sem er ávísun á niðursveiflu og hallarekstur, um leið og slær í bakseglin?

Er það einhver einföldun á skattkerfinu að lækka veiðigjöld? Einfaldar það eitthvað að taka aðeins minna? Þetta heldur ekki alveg vel.

Varðandi hugmyndir um að beita óhefðbundnum aðferðum eins og þessum hef ég alltaf gaman af svona hugmyndum og þessi er ein af þeim en ég hef ekki náð alveg utan um hana enn þá, ég verð að viðurkenna það. Ég hef ekki gert það. Ég er hrifinn af ýmsum hugmyndum hv. þingmanns og hann er frjór, hann hefur þann stóra kost að hugsa stundum út fyrir boxið og þora að setja fram og velta fyrir sér nýjum og frjóum hugmyndum. Ég hef alveg óskaplega gaman af því og tel það gott fyrir okkur að hafa slíka aðila (Forseti hringir.) hér með okkur, en við áskiljum okkur auðvitað alltaf rétt til að vega og meta hvort við kaupum það eða sannfærumst um að það sé rétt. (Forseti hringir.) Ég hef ekki sannfærst enn þá um að þetta sé almennilega fær leið.