145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að í stóru hagkerfi sem virkaði almennilega væri almennt mjög slæm hugmynd að hafa ríkisbanka yfir höfuð.

Ástæðan fyrir því að ég gef þessari hugmynd tækifæri þegar hún kemur frá hv. þm. Frosta Sigurjónssyni er ekki í sjálfu sér til þess að spara ríkinu fé. Það getur verið heppilegt en það getur líka verið mjög óheppilegt vegna þess að því geta fylgt mjög alvarlegir spillingarhvatar, eins og margir vita.

Ástæðan fyrir því að mér finnst hugmyndin hugsanlega eiga við á Íslandi er einfaldlega smæð íslenska hagkerfisins og sú skoðun mín að það sé eðlilegra á Íslandi en í stærri hagkerfum að einkaaðilar séu í samkeppni við ríkisvaldið, eitthvað sem ég veit að mörgum öðrum sem eru mér annars oft sammála í hagfræðinni er mjög illa við. En það verður að hafa það. Við erum í mjög litlu hagkerfi. Það eru ýmsar kenningar og undirkenningar undir kapítalismanum sem eru vissulega rökréttar, misvel prófaðar og misvel prófanlegar. En hér á Íslandi er svo mikið af þessum reglum, svo mikið af þessari dýnamík sem brotnar niður út af smæð hagkerfisins vegna þess að hagfræðin, og sér í lagi sá hluti hennar sem er vísindalegur og mælanlegur, stólar á að við höfum margt fólk, að við höfum þó nokkuð stórt hagkerfi. Ísland er í sjálfu sér skást til þess að prófa hluti, frekar en að beita kenningum sem hafa verið prófaðar á risavöxnum hagkerfum eins og í Þýskalandi og Bandaríkjunum og jafnvel stærri hagkerfum.

Það er fyrst og fremst út frá hagfræðilegum forsendum sem ég er hrifinn af þessari hugmynd en í sjálfu sér ekki vegna þess að hún gæti sparað ríkinu fé. Þótt ég taki undir að verðið skipti máli í því sambandi er það því ekki áherslan (Forseti hringir.) sem ég hef að leiðarljósi þegar ég mynda mér skoðun á þessum lið.