145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:12]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni svarið og ætla fyrst að segja það að ég er á svipuðum slóðum með grundvallarskoðun á atvinnuuppbyggingu almennt og rekstrarumhverfi, svo lengi sem markaðurinn getur ráðið við það er það æskilegast.

Það er hins vegar hárrétt hjá hv. þingmanni að hér er fákeppni. Það er viss vandi fólginn í því. Það krefst þess að við þurfum að hafa öflugt eftirlit, samkeppniseftirlit, til þess að gagnsæið geri það að verkum að þetta geti virkað. Ég bendi á Noreg í þessu dæmi. Statoil er 67% í eigu ríkis og rest í eigu einkaaðila. Það er vissulega leið að fara blandaða leið með ríkis- og einkaeigu. Telenor er 30–40% í eigu ríkisins og rest í eigu einkaaðila. Hvers vegna? Vegna þess að það eru miklir hagsmunir og markaðurinn er ekki alveg endilega tilbúinn til að sjá um þetta vegna fákeppni.

Ég held því að við verðum að taka þetta út frá því sjónarhorni og tel það hárrétt skoðað hjá hv. þingmanni.

Ég vildi bæta við einni spurningu í seinna andsvari, af því að ég tel reyndar að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hafi ekki ólíka eiginleika og hv. þm. Frosti Sigurjónsson og sé gjarn á að hugsa út fyrir boxið, sem er grundvöllur góðrar rökræðu.

Varðandi gjaldmiðilinn. Hvaða skoðun hefur hv. þingmaður? Hann nefndi hlutverk peninga og við erum að ræða þetta út frá peningastefnulegum forsendum. Hvaða skoðanir hefur hv. þingmaður (Forseti hringir.) á íslensku krónunni sem framtíðargjaldmiðli þjóðarinnar?