145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að íslenska krónan sé afskaplega óheppilegur gjaldmiðill og verði það alltaf. Ég held hins vegar að jafnvel þótt við mundum skipta um gjaldmiðil mundum við ekki flýja þau vandamál af því að við erum einfaldlega fámenn þjóð með smátt hagkerfi. Það að skipta út gjaldmiðli væri því engin galdralausn að mínu mati. Það mundu fylgja því einhverjar fórnir og sér í lagi hvað varðar skiptinguna sjálfa, í það minnsta ef við ætluðum að fara að taka upp annan gjaldmiðil einhliða, sem ég tel ekki raunhæft ef ég segi eins og er.

Ég held að það séu í raun og veru einungis tvær leiðir til þess að gera það. Hugsanlega er önnur þeirra innganga í Evrópusambandið, sem er alveg kapítuli út af fyrir sig, og hin er sú að gera það í samstarfi við erlendan seðlabanka, sem við yrðum síðan alltaf á margan hátt mjög háð.

Sumir hafa nefnt kanadíska dollarann í þeim skilningi. Menn fúlsa mismikið við þeirri hugmynd. Mig hefur langað að ræða hana betur. Ég er ekki sannfærður um að hún sé endilega raunhæf en það dugar mér í bili að hún gæti verið það. Ég er alla vega ekki algjörlega sannfærður um að hún sé gjörsamlega vonlaus.

Þegar kemur að gjaldmiðlinum tel ég að íslenska krónan hafi einn veigamikinn kost sem hins vegar lýsi sér í afskaplega alvarlegum vankostum. Kosturinn er sá að hún er sveigjanleg, að hún getur farið upp og niður í verði. Vandinn er nákvæmlega hinn sami, að hún getur farið upp og niður í verði. Það þýðir að þegar við erum með opin og rík viðskipti við önnur lönd, ég tala nú ekki um þegar þetta er orðið samband sem er mjög náið borgurunum og fólk tekur húsnæðislán í erlendum gjaldeyri eða eitthvað því um líkt, það er orðið mjög náið og farið að vera mjög ríkur hluti af lífi borgarans, þá verður hagkerfið um leið og allar forsendurnar fyrir því veikara fyrir þessum hagsveiflum, sem er jú stór hluti ástæðunnar í þetta sinn að allir trylltust yfir hruninu.

Ég held þó að pirringurinn hefði verið hinn sami með öðrum gjaldmiðli við hrunið. Hann hefði aðeins brotist öðruvísi út. (Forseti hringir.) Ég verð eiginlega að ljúka þessu með því að segja að ég tel ekki galdralausn að skipta um gjaldmiðil en ég er ekki hrifinn af íslensku krónunni.